ESB lofar að senda fjármuni til hamfarasvæða í Asíu hið snarasta

Íbúar í Galle á Sri Lanka við rústir húss síns …
Íbúar í Galle á Sri Lanka við rústir húss síns sem eyðilagðist í hamförunum á annan dag jóla. AP

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) lofaði í dag að þeir fjármuni sem ESB hefur lofað að láta renna til hamfarasvæða í Asíu, verði sendir þangað hið snarasta. ESB hefur lofað allt að 450 milljónum evra til hjálparstarfsins, en það samsvarar um 37,5 milljörðum íslenskra króna.

„Það sem ESB og aðrir gefendur í heiminum þurfa að gera núna er að breyta loforðunum í beinharða peninga,“ sagði Barroso og benti á að ESB hefði lofað mestu til hjálparstarfsins.

ESB og hin 25 aðildarríki sambandsins hafa lofað samtals um 1,5 milljarði evra til neyðaraðstoðar og endurreisnarstarfs í þeim löndum sem urðu illa úti af völdum jarðskjálfta og flóða í Suður-Asíu á annan dag jóla.

„Við vitum að fyrir það fólk sem missti allt sitt í hamförunum duga ekki loforðin ein. Það að senda með skjótum hætti góða aðstoð til svæðanna og hjálparaðgerðir til lengri tíma er það sem skiptir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert