Danskir ferðamenn senn til Phuket-eyju að nýju

Hreinsunarstörf á Phuket-eyju í dag.
Hreinsunarstörf á Phuket-eyju í dag. AP

Stærsta ferðaskrifstofa Danmerkur, Star Tour, hyggst bjóða upp á ferðir til suðurhluta Taílands að nýju frá og með 1. febrúar, að því er fram kemur í frétt danska blaðsins B.T. Viku seinna ætlar ferðaskrifstofan My Travel að gera slíkt hið sama. Var þetta ákveðið einungis degi eftir að danska utanríkisráðuneytið nam úr gildi viðvaranir við því að ferðast til Phuket á Taílandi.

My Travel býður ferðir til Patong strandar, Kata strandar, Karon strandar, Surin strandar og Krabi. Star Tour hyggst hins vegar bjóða ferðir til Kata strandar, Karon strandar og Krabi.

Í frétt B.T er haft eftir fulltrúa My Travel að 40 af 43 hótelum á Phuket séu reiðubúin til þess að taka að nýju á móti gestum. „Við erum ánægðir með að við getum að nýju farið að bjóða ferðir til Phuket og við reiknum með því að að um 45% þeirra ferða sem við hugðumst upphaflega bjóða verði farnar,“ sagði Jan Vendelbo sölu- og markaðsstjóri hjá My Travel. Hann sagði ennfremur að allt benti til þess að besti stuðningurinn við Taílendinga til lengri tíma litið, væri að senda þangað ferðamenn svo hjól hagkerfisins tækju að snúast á ný.

Ferðamannastaðirnir Khao Lak og Phi Phi eyja eru hins vegar ekki í nógu góðu ástandi til þess að taka á móti ferðamönnum í vetur. „Það er ljóst að við getum ekki sent gesti til Khao Lak, þar sem allt lítur enn hræðilega út, en þrátt fyrir það vonumst við til þess, og reiknum með, að við getum nýtt um helming þeirra ferða sem við höfum bolmagn til að bjóða,“ sagði Birthe Madsen, framkvæmdastjóri hjá Star Tour um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert