Kardínáli kaþólsku kirkjunnar hefur loks tjáð sig um skáldsöguna Da Vinci lykilinn eftir Dan Brown og sagt hana „skammarlega og tilefnislausa" en fulltrúar Páfagarðs hafa fram að þessu neitað að tjá sig um bókina sem er ein af vinsælustu bókum síðustu ára.
Tarcisio Bertone, kardináli og erkibiskup af Genúa, segir í tímaritsviðtali að það komi sér á óvart og valdi sér áhyggjum hversu margir trúi þeim lygum sem fram komi í bókinni en þar er því m.a. haldið fram að kirkjan hafi leynt því að Jesús hafi átt barn með Maríu Magdalenu.
„Bókin er alls staðar. Það er raunveruleg hætta á því að margir sem lesi hana fari að trúa því að lygasögurnar í henni séu sannar," segir kardínálinn.