Segir ljóst að hryðjuverkahópur hafi undirbúið sprengjuárásirnar

Vopnaðir lögreglumenn standa vörð í miðborg Lundúna í dag.
Vopnaðir lögreglumenn standa vörð í miðborg Lundúna í dag. AP

Ian Blair, lögreglustjóri Lundúna, segir ljóst að hryðjuverkahópur hafi starfað í Bretlandi við undirbúning sprengjuárásanna í gærmorgun. Staðfest hefur verið að 49 létu lífið í árásunum en vitað er að enn eru lík í lestarvögnum eftir sprengingu í neðanjarðarlest við Russel Square. Ekki hefur verið hægt að komast að vögnunum enn vegna þess að göngin eru talin ótraust eftir sprengingu.

„Þetta var algerlega tilviljunarkennd árás og enginn greinarmunur var gerður á kynþáttum, húðlit, kyni og aldri fórnarlambanna," er haft eftir Blair á fréttavef BBC. Hann sagði, að þeir sem létu lífið og særðust í sprengingunum fjórum hafi m.a. verið frá Sierra Leone, Ástralíu, Portúgal, Póllandi og Kína auk Bretlands.

Blair sagði, að tímasetning sprenginganna sýndi, að einn maður hafi ekki verið að verki. Gífurleg lögregluaðgerð er hafin til að leita tilræðismennina uppi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert