Fyrrum aðstoðarmaður Rumsfeld spáir fleiri hryðjuverkarárásum

Að minnsta kosti 50 manns fórust í árásunum í Lundúnum …
Að minnsta kosti 50 manns fórust í árásunum í Lundúnum í fyrradag. AP

Richard Perle, sem var einn af helstu „haukunum“ innan Bandaríkjastjórnar, en hann er fyrrum ráðgjafi bandaríska varnarmálaráðherrans, spáði því í dag að fleiri ámóta árásir og sú sem gerð var í Lundúnum í fyrradag, eigi eftir að eiga sér stað. Perle segir árásina í Lundúnum bera einkenni árása hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda.

Perle líkti íslamskri öfgastefnu við kommúnisma og fasisma og sagði íslamska öfgahyggju ógn við stærstan hluta heimsins.

Að minnsta kosti 50 manns fórust í fjórum sprengingum í Lundúnum á fimmtudag og um 700 manns særðust. Árásirnar á fimmtudag „eru ekki síðasta árásin, það verða fleiri, hvenær og hvar er erfitt að spá um,“ sagði Perle í samtali við AFP-fréttastofuna í dag. „Sú aðferðafræði sem notuð var og einkenni árásanna gefa til kynna að al-Qaeda hafi verið að verki,“ bætti hann við.

Perle, sem er fyrrum aðstoðarmaður Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sat í varnarmálanefnd Bandaríkjastjórnar þar til í febrúar í fyrra. Hann studdi ákaft að ráðist yrði inn í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert