Bresk flugmálayfirvöld viðurkenna að fangaflugvélar CIA lentu í Bretlandi

Ein þeirra flugvéla sem nefndar hafa verið í tengslum við …
Ein þeirra flugvéla sem nefndar hafa verið í tengslum við fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar, CIA á Reykjavíkurflugvelli . mbl.is/Sverrir

Flugmálayfirvöld í Bretlandi hafa viðurkennt að þrjár fangaflugvélar á vegum bandarísku leyniþjónustunnar (CIA) hafi nokkrum sinnum lent á flugvöllum í Bretlandi og notið þjónustu flugmálastjórnar á síðastliðnum fimm árum. Ekki er vitað um fjölda þeirra sem voru um borð í vélunum. Breskir þingmenn vissu fyrst af því í gærkvöldi að bresk flugmálayfirvöld hefðu vitneskju um að flugvélar CIA, sem sinnt höfðu „sérstökum verkefnum“, hefðu lent á breskum flugvöllum.

Í sunnudagsútgáfu breska dagblaðsins The Indepedent segir m.a. að breskir þingmenn hafi fyrst vitað af málinu í gærkvöldi þegar þeir fengu bréfi frá flugmálayfirvöldum þar sem frá því var greint að flugvélar sem sinnt hafi „sérstökum verkefnum“ á vegum CIA hafi farið yfir breska lofthelgi og lent á flugvöllum í landinu. Sögðu þeir ljóst að ráðherrar landsins gætu ekki lengur sagt að þeir hefðu enga vitneskju um ferðir vélanna.

Bréfið var sent til sir Menzies Campells, þingmanns frjálslynda demókrataflokksins, að skipan Karenar Buck, samgönguráðherra Bretlands, en í því sagði m.a. að samkvæmt lendingaskrám bresku flugmálastjórnarinnar hafi fjórar vélar CIA lent í Bretlandi og hafi þrjár vélanna fengið ýmiskonar þjónustu á flugvöllunum í nokkur skipti á sl. fimm árum. Þá kemur fram að ekki sé segja nákvæmlega til um hversu oft vélarnar hafi lent í Bretlandi.

Vélarnar sem um ræðir tilheyra svokölluðum „draugavélum“ á vegum CIA sem sést hafa endrum og eins í Bretlandi frá árinu 2001. Fram kemur í bréfi bresku flugmálastjórnarinnar að vélarnar hafi komið oft og hafi jafnvel ferðast undir öðrum merkjum.

Þá var gefið í skyn að breska varnarmálaráðuneytið hafi gefið vélunum leyfi til að lenda á flugvöllum breska hersins en ráðuneytið hefur ætíð neitað að tjá sig um málið þrátt fyrir kröfu Menzies um slíkt.

Vill ekki rannsaka flugin
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur ætíð sagt að hann hafi ekki haft neina vitneskju um fangaflugin svokölluðu en hefur neitað að setja á laggirnar sérstaka óháða nefnd til að fara í saumana á málinu, að sögn Independent.

Þá kemur fram í blaðinu að talið sé að allt að 76 fangaflugvélar á vegum CIA hafi lent á flugvöllunum í Prestwick, herstöðinni í Northolt, Luton og Glasgow frá 11. september árið 2001 með fanga á milli landa.

Nick Clegg, talsmaður utanríkismálanefndar breska frjálslynda flokksins, sagði í gærkvöldi að sér þætti merkilegt að opinber stofnun hefði með bréfinu staðfest fangaflugin. „Enn á eftir að svara spurningum um áfangastað vélanna og hverjir voru um borð í þeim,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert