Rússar taka upp reglulegt eftirlitsflug utan lofthelgi sinnar

Vladimir Putin Rússlandsforseti greindi frá því í dag að flugher landsins hefði tekið upp reglulegt eftirlitsflug út fyrir lofthelgi Rússlands. Fjórtán herflugvélar sinntu slíku flugi utan lofthelgi Rússlands í dag og segir Putin að um sé að ræða varanlega varnaraðgerð sem gripið hafi verið til vegna þeirrar öryggisógnar sem Rússar standi frammi fyrir vegna hernaðarumsvifa annarra þjóða. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

„Við höfum ákveðið að hefja reglulegt eftirlitsflug utan lofthelgi Rússlands í hernaðarlegum tilgangi,” sagði hann. „Í dag fóru fjórtán sprengjuflugvélar í slíkar ferðir frá sjö flugvöllum víðs vegar um landið, auk stuðnings- og eldsneytisvéla. Árið 1992 tóku Rússar einhliða ákvörðun um að hætta hernaðarlegu eftirlitsflugi langt út fyrir lofthelgi Rússlands en því miður fylgdu aðrir ekki í fótspor okkar. Önnur ríki halda áfram hernaðarlegu eftirlitsflugi og það skapar ákveðinn vandamál varðandi varnir Rússlands."

Fyrr í þessum mánuði gerðu rússneskir embættismenn grein fyrir því að rússneskar herþotur hefðu flogið til Guam þar sem Bandaríkjaher rekur herstöð og að bandarískar herfluglvélar hafi verið sendar á loft til að veita þeim eftirför.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið segir rússnesku flugvélarnar hins vegar ekki hafa komið svo nálægt að ástæða hafi verið talin til að grípa til aðgerða.

Vladimir Putin Rússlandsforseti
Vladimir Putin Rússlandsforseti Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert