Rice segir Bandaríkjamenn taka gróðurhúsaáhrifin alvarlega

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AP

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, flutti í dag ávarp á ráðstefnu 16 þjóða sem mest menga í heiminum. Í ræðu sinni sagði hún Bandaríkjamenn taka hættuna sem stafar af gróðurhúsaáhrifum á jörðinni mjög alvarlega.

„Hvers konar heim viljum við búa í? Og hvers konar heim viljum við afhenda komandi kynslóðum?”, spurði Rice. „Bandaríkjamenn taka loftslagsbreytingar mjög alvarlega þar sem við erum bæði stórt hagkerfi og miklir mengunarvaldar.

Tilgangurinn með ráðstefnunni er að hrinda af stað fimmtán mánaða ferli þar sem þjóðir sem mikið menga setja fram áætlun um að draga úr mengun og leita leiða til að glíma við mengunarvandann með iðnaði, nýrri tækni og öðrum úrræðum sem í boði eru.

Ráðstefnan stendur í tvo daga , en George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sem lagði til að ráðstefnan yrði haldin, heldur ræðu á föstudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina