CIA telur að al-Qaeda beri ábyrgð á morðinu á Bhutto

Benazir Bhutto
Benazir Bhutto STEPHEN HIRD

Leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, telur að Baitullah Mehsud, meintur bandamaður al-Qaeda í Pakistan, og al-Qaeda hryðjuverkasamtökin standi á bak við morðið á Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans. Mehsud hefur neitað ásökunum um að hafa átt aðild á morðinu þann 27. desember sl. 

 Michael Hayden, yfirmaður CIA, segir í viðtali við bandaríska dagblaðið Washington Post að Bhutto hafi verið myrt að öfgamönnum sem tengjast Baitullah Mehsud. Fréttaskýrendur segja að þetta sé það afdráttarlausasta sem bandaríska leyniþjónustan hefur sagt um morðið á Bhutto.

Breska rannsóknarlögreglan, Scotland Yard, vinnur að rannsókn á morðinu en forseti Pakistan, Pervez Musharraf, óskaði eftir aðstoð frá breskum stjórnvöldum. Sagðist Musharraf ekki vera sáttur við rannsókn innlendra lögreglumanna. Mistök eins og þau að gatan þar sem tilræðið átti sér stað skyldi vera spúluð áður en búið var að rannsaka hana vandlega hafi verið gerð vegna vankunnáttu lögreglu en ekki haft það að markmiði að hylja merki um aðild ráðamanna að morðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert