Íbúar New Orleans varaðir við

Lögregla í New Orleans ætlar í dag að fara um stræti borgarinnar með gjallarhorn þar sem íbúar eru beðnir um að forða sér í öruggt skjól áður en fellibylurinn Gustav herjar á borgina. Lofar lögregla því að neyðarskýli verði öruggari nú heldur en þegar fellibylurinn Katrín lagði borgina nánast í rúst fyrir þremur árum.

Samkvæmt veðurspá sem gefin var út í gærkvöldi er ljóst að Gustav mun fara yfir borgina, hvort sem það verður með beinum eða óbeinum hætti. Talið er að fólk þurfi að yfirgefa borgina og er jafnvel gert ráð fyrir því að öllum íbúum verði gert að yfirgefa heimili sín, jafnvel strax á morgun. Þeir íbúar sem ekki verða við tilmælum borgaryfirvalda að leita í öruggt skjól verður tilkynnt að þeir geri það á eigin ábyrgð.  

Borgaryfirvöld íhuga nú að boða útgöngubann sem þýðir að þeir sem fara út á götur þegar tilkynnt verður um að fólki eigi að hafa komið sér í öruggt skjól verða fangelsaðir.

Fjöldi íbúa New Orleans hefur tekið viðvaranir um að fellibylurinn sé að nálgast borgina alvarlega. Gríðarleg umferð var út úr borginni í gærkvöld og voru margar bifreiðar hlaðnar farangri. Sjúkrahús og hjúkrunarheimili hófu í gær að flytja sjúklinga í öruggt skjól lengra inn í landið. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka