Treysta ekki lengur Obama

Barack Obama
Barack Obama Reuters

Tiltrú almennings á getu Barack Obama Bandaríkjaforseta til þess að leiða landið á rétta braut virðist fara þverrandi. Þetta sést skýrt sé rýnt í nýja skoðanakönnun sem birt er í Washington Post.

„Nú, fjórum mánuðum fyrir miðvalskosningar sem setja munu skýrt mark á seinni helming kjörtímabils hans, segjast nærri 60% kjósenda hafa misst trúna á því að forsetinn geti tekið réttar ákvarðanir fyrir þjóð sína. Og mikill meirihluti svarenda segist óánægður með hvernig hann hafi tekið á fjármálakrísunni,“ segir m.a. í frétt blaðsins.

Könnunin kemur á sama tíma og Obama þarf að takast á við ýmis vandasöm verkefni s.s. stríðsrekstur landsins á erlendri grundu, mikið atvinnuleysi heimafyrir, veikburða hlutabréfa- og húsnæðismarkaði sem og olíumengunarslysið við Mexíkóflóa.

Demókratar óttast að hljóti flokkurinn vonda kosningu í komandi miðvalskosningum þá geti það haft afdrifarík, neikvæð áhrif á Obama, þar sem hann muni þá ekki hafa nægan stuðning næstu tvö árin til þess að koma þeim málefnum sem hann berst fyrir í gegnum þingið.


mbl.is

Bloggað um fréttina