Viðvörun vegna lifrarbólgu C

Talið er að þúsundir Breta þurfi að fá ný líffæri …
Talið er að þúsundir Breta þurfi að fá ný líffæri eftir 9 ár. Reuters

Meira en 4.000 manns í Bretlandi gætu þurft að fá nýja lifur fyrir árið 2020 vegna lifrarbólgu C. Sérfræðingar í heilsuvernd telja að margir séu með sjúkdóminn óafvitandi.

Sérfræðingar telja að  216.000 Bretar séu sýktir af krónískri lifrarbólgu C, og að margir þeirra hafi ekki fengið greiningu.

Lifrarbólga C getur smitast með blóði en sjaldgæfara er að sjúkdómurinn smitist með líkamsvessum. 

Þeir sem deila nálum eru í sérstakri hættu sem og þeir sem hafa þegið blóð fyrir árið 1991 og  hafa farið í aðgerðir erlendis. 

Ef fólk deilir tannburstum, rakblöðum, skærum eða fær sér hörundsflúr, aukast líkurnar á smiti. 

Helen Harris sérfræðingur í lifrarbólgusjúkdómum segir að margt fólk án einkenna viti ekki að það sé smitað.

Hún ráðleggur fólki að fara í greiningu ef það hefur smávægilegan grun um að það gæti verið smitað. Því fyrr sem fólk er greint, því meiri líkur eru á lækningu. 

Talið er að lyfjagjöf geti náð tökum á sýkingunni í meira en helmingi tilfella.

Sjá frétt á vef The Guardian. 

mbl.is