Þrjú stór skref í átt að lækningu við alnæmi

Niðurstöður þriggja rannsókna voru kynntar fyrr í dag á heimsráðstefnu …
Niðurstöður þriggja rannsókna voru kynntar fyrr í dag á heimsráðstefnu um alnæmi sýna fram á stórbatnandi horfur í baráttunni gegn sjúkdómnum. YANNIS BEHRAKIS

Niðurstöður þriggja rannsókna sem kynntar voru fyrr í dag á heimsráðstefnu um alnæmi sýna fram á stórbatnandi horfur í baráttunni gegn sjúkdómnum. 

Ein rannsóknin beindist að hópi tólf sjúklinga í Frakklandi sem hófu meðferð á veirulyfjum innan 10 vikna frá því að þeir greindust með alnæmi, en hættu svo meðferð.

HIV vírusinn greindist ekki í líkama sjúklinganna í 6 ár (miðgildi) eftir ofangreindan aðdraganda. Þó hvarf vírusinn ekki að fullu, en hann mældist á afar lágu stigi í líkama þeirra og hafði engin áhrif á ónæmiskerfi þeirra þannig að þeir veiktust ekki.

Rannsóknarhópurinn kallast Visconti Cohort og sérhæfir sig í veiru- og ónæmisfræðirannsóknum í stýrðum tilfellum eftir rof alnæmismeðferðar.

„Niðurstöðurnar benda til þess að hefja ætti veirulyfjameðferð eins fljótt og auðið er eftir sýkingu,“ segir Charline Bacchus, stjórnandi rannsóknarinnar. 

„Sex árum eftir rof meðferðar sýna sjúklingarnir sem strax voru meðhöndlaðir með veirulyfjum fullkomna getu til að halda HIV vírusnum niðri,“ bætti hann við. 

34 milljónir alnæmissmitaðra

Vísindamenn munu á næstunni halda áfram rannsóknum á ónæmiseinkennum hópsins í tilraun til að leita vísbendinga um af hverju þeir virðast ekki þurfa á langvarandi lyfjameðferð að halda. Í flestum tilfellum er alnæmissmituðum einstaklingum gert að taka veirulyf út lífið.

34 milljónir manna eru greindir með alnæmi í heiminum í dag og í þeim löndum heims þar sem flestir alnæmissmitaðra búa taka samtals 8 milljón manns veirulyf til að halda einkennum sjúkdómsins niðri. 

Önnur rannsókn sem kynnt var á ráðstefnunni beindist að tveimur alnæmissmituðum sem gengust undir stofnfrumuskipti frá utanaðkomandi gjafa. 8 árum og 17 mánuðum eftir skiptin sýndi erfðaefni þeirra engin merki um vírusinn.

Þessi tilfelli eru ólík hinum vel þekkta „Berlínarsjúklingi“, bandarískum manni sem talinn er hafa læknast af alnæmi og hvítblæði eftir að hafa gengist undir beinmergsflutning frá gjafa sem annað hvort hafði náttúrulega mótstöðu gegn alnæmi eða skorti svokallaðar CCR5 skynfrumur.  

Mennirnir tveir fengu hins vegar stofnfrumur frá gjöfum sem höfðu CCR5 skynfrumur í líkama sínum, en talið er að frumurnar verki sem brú sem gerir HIV vírusnum kleift að komast inn í frumur líkamans, svo að ekki var í því tilfelli um að ræða náttúrulega vörn gegn vírusnum.  

Krabbameinslyf gagnleg í baráttunni gegn alnæmi

Rannsóknin var á ráðstefnunni kynnt af stjórnanda hennar, Daniel Kuritzkes, sem starfar sem prófessor í læknisfræði við Brigham spítala í Massachusetts. 

Þriðja rannsóknin sýndi svo fram á hvernig krabbameinslyf reyndist gagnlegt við að útrýma HIV vírusnum úr frumum alnæmissmitaðra einstaklinga. Þeirri rannsókn stýrði  David Margolis við háskólann í Norður-Karólínu.

Margolis sagði við blaðamenn eftir ráðstefnuna að rannsakendur hefðu með niðurstöðunum öðlast aukna von í baráttunni gegn alnæmi, jafnvel þótt lokatakmarkinu yrði ekki náð fyrr en eftir fjölda ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert