Játaði á sig kynferðisbrot

Keith O'Brien
Keith O'Brien THOMAS COEX

Reiknað er með að páfagarður láti fara fram formlega rannsókn á ásökunum á hendur Keith O'Brien, sem sagði af sér sem kardínáli í síðustu viku vegna ásakana um kynferðisbrot gegn fjórum prestum. O'Brien hefur viðurkennt að hafa brotið af sér.

Þrír prestar kaþólsku kirkjunnar og einn fyrrverandi prestur hafa sakað O'Brien um að hafa brotið gegn þeim þegar þeir voru ungir prestar. Elsta málið er um 30 ára gamalt. Prestarnir sendur formlega kvörtun til páfagarðs í upphafi síðasta mánaðar. Það varð til þess að O'Brien ákvað að segja af sér. Hann sagðist gera það vegna þess að hann vildi ekki varpa skugga á kjör nýs páfa, en O'Brien átti að vera eini fulltrúi kaþólsku kirkjunnar á Bretlandi sem átti að taka þátt í kjöri nýs páfa.

O'Brien sendi frá sér nýja yfirlýsingu um helgina þar sem hann segir að það hafi komið þeir tímar meðan hann var í þjónustu kaþólsku kirkjunnar „að kynferðislega hegðun mín hefur ekki staðið þær kröfur sem gerðar eru til mín sem prests, erkibiskups og kardínála.“ Hann bað einnig um fyrirgefningu þeirra sem hann hafi sært.

Talið er að formleg rannsókn páfagarðs á ásökunum á hendur O'Brien hefjist eftir að nýr páfi hefur verið kjörinn.

O'Brien gagnrýndi sem kardínáli samkynhneigð mjög harðlega og sagði m.a. að hjónaband samkynhneigðra ógnaði andlegri og líkamlegri heilsu samkynhneigðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert