Berlusconi sleppur við dóm

Berlusconi léttur í lund.
Berlusconi léttur í lund. ANDREAS SOLARO

Samkvæmt úrskurði áfrýjunardómstóls í Ítalíu þarf fyrrum forsætisráðherra landsins, Silvio Berlusconi, ekki að afplána sjö ára fangelsisdóm sem hann hlaut fyrir að greiða 17 ára stúlku fyrir kynlíf. 

Stúlkan, Kharima El Mahroug, hélt því fram að Berlusconi hafi greitt henni á milli tvö og þrjú þúsund evr­ur fyr­ir hvert kvöld. 

Um þessar mundir er Berlusconi við samfélagsþjónustu vegna fyrri brota en hann var sakfelldur fyrir skattsvik í fyrra. Fyrrum forsætisráðherrann, sem er 77 ára gamall, hjálpar til á hjúkrunarheimili fyrir Alzheimer sjúklinga einu sinni í viku og hefur gert það síðan í maí. 

Samfélagsþjónustan er eini dómurinn sem hann hefur þurft að afplána þrátt fyrir margar ákærur undanfarin ár. 

Berlusconi neitaði því ávallt að hafa átt í kynferðislegu sambandi við El-Mahroug og áfrýjaði dómnum þegar hann féll í júní í fyrra.

Samkvæmt frétt BBC birtust frásagnir af subbulegum veislum á heimili Berlusconi þar sem erótískar dansmeyjar voru meðal gesta á meðan að réttarhöldunum stóð  Dansmeyjarnar lýstu þó veislunum alltaf sem „fáguðum kvöldverðarboðum.“

Eftir úrskurð áfrýjunardómstólsins sagði lögfræðingur Berlusconi að niðurstöðurnar hefðu farið fram úr þeirra björtustu vonum. 

Berlusconi var þrisvar kjörinn forsætisráðherra Ítalíu. Hann er enn leiðtogi hægriflokksins Forza Italia. 

Franco Coppi lögfræðingur Berlusconi í dag.
Franco Coppi lögfræðingur Berlusconi í dag. GIUSEPPE ARESU
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert