Danir ganga að kjörborðinu

Danska þjóðin gengur að kjörborðinu í dag, fimmtudag, og er spennan í algleymingi. Flest bendir til þess að afar mjótt verði munum í þingkosningunum, ef marka má nýjustu skoðanakannanir. 

Kosningabaráttan hefur verið heldur stutt, en Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur og leiðtogi Sósíaldemókrata, boðaði til kosninganna 27. maí síðastliðinn.

Mjótt er á mununum, eins og sagði, og óvíst hvort Thorning-Schmidt, sem er fyrsti kvenkyns forsætisráðherra landsins, muni gegna embættinu áfram.

Rætt hefur verið um velferðarmál, aðildina að Evrópusambandinu og efnahagsmál, svo eitthvað sé nefnt, í aðdraganda kosninganna en segja má að umræðan um innflytjendamál hafi verið afar fyrirferðamikil.

Tíu flokkar eru í framboði en flokkarnir mynda tvö kosningabandalög, ef svo má segja. Þeir flokkar sem staðsetja sig vinstra megin við miðjuna á hinu pólitíska litrófi mynda rauðu blokkina. Í rauðu blokkinni eru Sósíaldemókratar, Einingarlistinn, Radikale Venstre, Sósíalíski þjóðarflokkurinn og Alternativet.

Bláa blokkin samanstendur hins vegar af Íhaldsflokknum, Danska þjóðarflokknum, Frjálslynda bandalaginu og Kristilegum demókrötum. Lars LokkeRasmussen, formaður Venstre, er forsætisráðherraefni bláu blokkarinnar en Thorning-Schmidt þeirrar rauðu.

Samkvæmt nýrri könnun Epinion, sem danskir fjölmiðlar greindu frá í gær, fær bláa blokkin 51,3% atkvæða en sú rauða 48,7%. Gangi það eftir fær stjórnarandstaðan níutíu þingmenn og fellir þar með stjórnarmeirihlutann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert