Spennan í algleymingi í Danmörku

Líklegt þykir að afar mjótt verði á mununum í þingskosningunum sem fara fram í Danmörku í dag. Kjördagur er runninn upp eftir stutta en snarpa kosningabaráttu sem hófst 27. maí síðastliðinn þegar Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði til kosninga.

Stjórnmálamenn úr öllum flokkunum tíu, sem eru í framboði, slógu ekki slöku við í morgun, heldur héldu kosningabaráttunni áfram, en hvert atkvæði getur skipt máli, allavega ef marka má nýjustu skoðanakannanir. Svo gæti reyndar farið að úrslitin í Færeyjum og á Grænlandi gætu skipt sköpum um hver það verður sem mun stjórna í Kristjánsborgarhöll næstu fjögur árin.

Þrjú mál hafa verið fyrirferðamest í kosningabaráttunni: efnahagsmál, velferðarmál og innflytjendamál.

Í Kaupmannahöfn má sjá kosningaskilti þar sem innflytjendur eru varaðir við því að halda að þeir geti nýtt sér velferðarbætur í landinu. „Ef þú kemur til Danmerkur, þá verður þú að vinna,“ segir á skiltunum, en skilaboðin koma frá Thorning-Schmidt, leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins.

Beggja vegna línunnar sem skilur rauðu stjórnarblokkina frá bláu blokkinni hafa leiðtogar flokkanna lofað að girða enn frekar fyrir umferð innflytjenda í landið. Hafa þeir lýst yfir vilja til að brjóta upp það sem þeir kalla „velferðartúrisma“, en í því felst meðal annars að neita atvinnulausum innflytjendum um varanlegt landvistarleyfi.

Það má segja að það hafi verið Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre, sem hafi lagt útlendingaspilið á borðið, eins og það var orðað í dönskum fjölmiðlum, þegar hann boðaði aðgerðir til að hefta straum flóttafólks til landsins. „Fyrsta verk mitt sem forsætisráðherra verður að leita tafarlausra leiða til að hefta struam flóttafólks,“ sagði hann á blaðamannafundi í seinustu viku.

Rasmussen er forsætisráðherraefni bláu blokkarinnar.

„Til þess að svo megi verða þarf að kalla þingið til starfa. Við getum ekki setið og beðið þangað til í október, því við vitum að mesta álagið er á sumrin,“ sagði hann og átti þar við að flestir hælisleitendur koma til Danmerkur á þeim árstíma.

Hefur Rasmussen jafnframt heitið því að endurvekja svonefnt aðlögunarráðuneyti, sem myndi sjá um málefni flóttamanna og innflytjenda, sigri hann kosningarnar.

Hægriflokkarnir í Danmörku hafa í gegnum tíðina tekið heldur harða afstöðu í útlendingamálum á meðan vinstriflokkarnir hafa lagt áherslu á að allir eiga að fá tækifæri, einnig innflytjendur. Það hefur hins vegar breyst að einhverju leyti fyrir þessar þingkosningar. Jafnaðarmenn hafa nú lagst á sveif með hægriflokkunum.

Áhrifin hafa meðal annars verið þau að fylgi Danska þjóðarflokksins, sem hefur ávallt verið harðastur í afstöðunni til útlendinga, er lægra en oft áður og hefur dalað að undanförnu.

Samkvæmt skoðanakönnun sem dagblaðið Berlingske birti í gær hlýtur rauða blokkin um 49,3% atkvæða en sú bláa um 50,7%. Athygli vekur hins vegar að fimmtungur kjósenda er enn óákveðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert