Óvíst hvenær ríkisstjórn verður mynduð

Lars Løkke Rasmus­sen, leiðtogi Venstre.
Lars Løkke Rasmus­sen, leiðtogi Venstre. AFP

Lars Løkke Rasmus­sen, leiðtogi Venstre, fundaði í dag með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á danska þinginu. Hann segir ekki ljóst hvenær ný ríkisstjórn verði mynduð í landinu.

Eins og kunnugt er fékk Rasmussen umboð Margrétar Þórhildar Danadrottningar í gær til að mynda nýja ríkisstjórn eftir þingkosningarnar á fimmtudag. 

Þrátt fyrir að flokkurinn hans hafi tapað hvort tveggja fylgi og þingmönnum í kosningunum, og sé nú næststærstur innan bláu blokkarinnar á eftir Danska þjóðarflokknum, þá er Rasmussen enn þá opinberlega forsætisráðherraefni blokkarinnar.

Hann fundaði fyrst í morgun með leiðtoga Danska þjóðarflokksins, Kristian Thulesen Dahl.

Hins vegar er alls óvíst hvort Dahl vilji setjast í ríkisstjórn með Venstre. Fari hann eftir því sem hann hefur áður lofað mun hann ekki heimta sæti í ríkisstjórn heldur frekar verja minnihlutastjórn Venstre og fleiri flokka vantraustsyfirlýsingum. Þá leið fór flokkurinn einnmitt síðast þegar Venstre var við völd á árunum 2001 til 2011.

Þjóðarflokkurinn fengi með þessum hætti að hafa töluvert að segja um lagasetningu á þinginu en að sama skapi gæti hann forðast að fella á sig sök þegar ríkisstjórnin misstígur sig.

Stjórnarmyndunarviðræðurnar halda áfram á morgun, sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert