„Besta sagan í heiminum í dag“

AFP

Fólk sem glímir við grafalvarlega fátækt í heiminum fer enn fækkandi og í ár er útlit fyrir að þetta hlutfall fari niður fyrir 10% af mannfjölda heimsins. „Þetta er besta sagan í heiminum í dag,“ segir Jim Yong Kim, forseti Alþjóðabankans. 

Í skýrslu Alþjóðabankans sem kemur út í dag kemur hins vegar fram að enn er óttast um afdrif milljóna Afríkubúa sem glíma við hungursneyð. Árfundur Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verða haldnir í Lima í Perú dagana 9.-11. október.

Samkvæmt skýrslunni eru um 702 milljónir jarðarbúa, 9,6%, við hungurmörk. Flestir þeirra búa í Afríku, sunnan Sahara og Asíu. Árið 2012 voru 902 milljónir eða um13% sem glímdu við hungursneyð. Árið 1999 var hlutfallið 29%.

Að sögn Kim er helsta skýringin á því hvers vegna það fækkar jafnt og þétt í þessum hópi sá mikli efnahagsvöxtur sem hefur verið í vanþróuðum löndum og fjárfestingar í menntun og heilbrigðiskerfi þessara ríkja. Þetta hefur komið í veg fyrir að milljónir hafa lent í fátæktargildrunni sem annars hefði beðið þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina