Þingið rannsakar Rousseff

Dilma Rousseff, forseti Brasilíu.
Dilma Rousseff, forseti Brasilíu. AFP

Brasilíska þingið samþykkti í dag að stofna sérstaka nefnd sem á að rannsaka ásakanir á hendur Dilmu Rousseff, forseta landsins. Sú rannsókn gæti endað með því að forsetinn verði ákærður. Rousseff er sökuð um bókhaldsbrellur í fjárlögum en hún hefur ítrekað lýst yfir sakleysi sínu.

Þingnefndin verður skipuð 65 þingmönnum sem munu taka afstöðu til þess hvort málinu verður vísað frá eða til meðferðar þingsins. Rousseff hefur sagt að þau ólöglegu bókhaldsbrögð sem ríkisstjórn hennar er sökuð um að beita hafi tíðkast lengi hjá fyrri ríkisstjórnum landsins. Hún kallar málatilbúnaðinn gegn sér tilraun til „valdaráns“.

Eins og sakir standa telur Rousseff sig geta varist ásökunum. Tveir af hverjum þremur þingmönnum í fulltrúadeild þingsins þurfa að veita samþykki sitt fyrir því að málinu verði vísað til formlegra réttarhalda á vegum öldungadeildarinnar. Þar þyrftu einnig tveir þriðju þingheims að greiða því atkvæði að setja forsetann af.

Bandamenn Rousseff eru sagðir vilja ljúka málsmeðferðinni fljótt af en búist er við því að stjórnarandstaðan geri allt sem í hennar valdi stendur til þess að tefja málið í pólitískum tilgangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert