Sakaðir um að nota myndskeið frá Tahrir-torgi í umfjöllun um árásirnar í Köln

Mótmælendur mótmæla mótmælum öfgahreyfingarinnar PEGIDA, en stuðningsmenn hennar hafa nýtt …
Mótmælendur mótmæla mótmælum öfgahreyfingarinnar PEGIDA, en stuðningsmenn hennar hafa nýtt sér árásirnar í Köln til að rökstyðja málflutning sinn um lokun landamæra Þýskalands. AFP

Ríkisfjölmiðlar í Ungverjalandi hafa verið sakaðir um að sýna myndskeið frá nauðgun á Tahrir-torgi í Egyptalandi með frétt um árásirnar í Köln. Undir fyrirsögninni „Sláandi myndskeið af kynferðisbrotunum í Köln“ segir að það sýni hóp af flóttamönnum umkringja ljóshærða konu sem kallar árangurslaust á hjálp.

Í greininni með myndskeiðinu, sem var birt af sjónvarpsstöðinni M1 og hirado.hu, segir að myndskeiðið hefði verið tekið upp á nýársnótt í Köln og birt fyrir stuttu á einni stærstu myndbandsdeilisíðum netsins.

Fréttasíðan Index.hu sagði hins vegar frá því að henni hefði borist myndband sem var birt á YouTube 30. júní 2013 og titlað „Dutch tourist raped in Tahrir Square, Cairo, Egypt“ og svo virðist sem um sé að ræða sama myndband og ríkisfjölmiðlarnir birtu.

Forsvarsmenn fjölmiðlanna hafa ekki svarað fyrirspurnum AFP um málið.

Þýskir fjölmiðlar voru á dögunum gagnrýndir í einum af fréttaþáttum M1 og sakaðir um hlutdrægan fréttaflutning af viðburðum í Köln. Ríkisstjórn Viktor Orban, sem hefur tekið einarða afstöðu gegn móttöku flóttamanna, hefur einnig gagnrýnt fréttaflutning í Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert