Fimm ástæður fyrir hruni bygginga

Hjálparstarfsmenn leita að eftirlifendum í byggingunni sem hrundi í Nairobi.
Hjálparstarfsmenn leita að eftirlifendum í byggingunni sem hrundi í Nairobi. AFP

Eftir að bygging hrundi til grunna í Kenía á dögunum þar sem að minnsta kosti 33 manns fórust, hafa sérfræðingar velt fyrir sér hvers vegna slík atvik gerast með reglulegu millibili í Afríku.

Enn er meira en 80 manns saknað eftir að sex hæða byggingin í Nairobi, höfuðborg Afríku, hrundi til grunna eftir mikið rigningaveður.

Frétt mbl.is: Fannst á lífi eftir sex daga

Á meðan verið er að rannsaka hvað það var sem fór úrskeiðis er ekki úr vegi að skoða nokkur algeng vandamál við húsasmíðar í heimsálfunni.

1. Undirstöðurnar eru of veikar

Undirstöður sem eru viðunandi geta verið kostnaðarsamar. Þær geta kostað allt að því helming af verði heillar byggingar, samkvæmt Anthony Ede, prófessor í byggingaverkfræði við Covenant-háskólann í Ota í Nígeríu en hann ræddi við fréttavef BBC um málið  

Hann segir að tvennt þurfi að hafa í huga þegar grunnur er byggður – hversu traustur jarðvegurinn er og hversu þungar byggingarnar eru og það sem í þeim er.

Í stærstu borg Nígeríu, Lagos, er þörf á sterkum undirstöðum vegna þess hve jarðvegurinn er mjúkur, mun sterkari undirstöðum en ef jarðvegurinn væri traustur.

Að sögn Ede reyna byggingaverktakar oft á tíðum að spara peningana sem eiga að fara í undirstöður og fyrir vikið hafa margar byggingar þar hrunið.

Ótraustar undirstöður fjögurra hæða byggingar var ein af þremur ástæðunum sem voru gefnar upp af rannsakendum fyrir því að hún hrundi í norðurhluta Rúanda árið 2013 þar sem sex manns fórust.

Leitað í rústum byggingarinnar í Nairobi.
Leitað í rústum byggingarinnar í Nairobi. AFP

2. Byggingarefnið er ekki nógu sterkt

Víða er notað byggingarefni sem er einfaldlega ekki nógu sterkt til að halda byggingum uppi, segir Hermogene Nsengimana frá stofnun sem hefur umsjón með byggingastöðlum í Afríku. Stofnunin hittist í Nariobi í síðasta mánuði til að ræða hvers vegna svona margar afrískar byggingar hrynja.

Nsengimana segir að markaður með ónothæft eða „falsað“ byggingarefni sé starfræktur og bætir við að stundum sé brotajárn notað í staðinn fyrir stál.

Þegar sex hæða bygging hrundi í Kampala, höfuðborg Úganda, í apríl gáfu yfirvöld í skyn að ónothæft byggingarefni hafi verið notað við byggingu hússins.

Stundum nota byggingaverktakar einnig það magn af steypu sem hentar fyrir einnar hæðar byggingu fyrir fjögurra hæða byggingu.

Ekki mun vera fylgst nógu mikið með þessu af eftirlitsaðilum.

Nærliggjandi hús í Nairobi.
Nærliggjandi hús í Nairobi. AFP

 3. Verkamenn gera mistök

Jafnvel þótt verkamenn noti réttu efnin til að búa til steypuna þá blanda þeir þeim stundum vitlaust saman, segir Ede.

Fyrir vikið verður steypan ekki nógu sterk til að halda uppi byggingunni.  

Hann segir að byggingaverktakar reyni oft að spara með því ráða ófaglærða verkamenn sem þarf að borga minna en faglærðum.

Þetta er ein af ástæðunum sem byggingaverkfræðingarnir Henry Mwanaki Alinaitwe og Stephen Ekolu gáfu fyrir að bygging hrundi í Úganda árið 2004. Samkvæmt rannsókn þeirra misskildu verkamennirnir aðferðina við að búa til steypuna. Notaðar voru hjólbörur í stað nákvæmari mælitækja til að mæla hversu mikið sement átti að nota.

Um var að ræða glænýtt hótel sem hrundi á meðan á byggingu þess stóð. Ellefu manns dóu.

AFP

4. Þunginn er meiri en reiknað var með

Að sögn Ede hrynja byggingar þegar þungi þeirra er meiri en undirstöðurnar ráða við. Hann notar dæmi um barn sem er beðið um að halda á þungum kassa. „Barnið ræður ekki við þungann.“

Jafnvel þótt undirstöðurnar og byggingarefnið eru nægilega sterk miðað við það sem þær áttu upphaflega að þola, getur notkun byggingarinnar breyst.

Til dæmis ef bygging átti að vera heimili en var síðan breytt í bókasafn með mörgum þungum bókum og kössum þá getur byggingin látið undan þunganum.

Önnur ástæða fyrir því að þunginn verður meiri en upphaflega var reiknað með er að aukahæðum er bætt við bygginguna.

Í mars hrundi bygging í Lagos með fleiri hæðum en hún átti upphaflega að hafa.  34 manneskjur fórust.

Tveimur árum áður hrundi samkomuhús vegna þess að þar voru fleiri hæðir en það þoldi. Þar fórust meira en eitt hundrað manns.

AFP

5. Styrkleikinn ekki prófaður

Á meðan á byggingu húsa stendur þarf að prófa styrkleika þeirra, segir Ede. „Þú verður að vera strangur hvað þetta varðar,“ sagði hann. „Samkvæmt lögunum þá verðurðu að prófa byggingarnar. Vandamálið er að menn eru ekki að framfylgja lögunum.“

Hann segir að þetta sé stórt vandamál því margir vilji spara peninga.

Það geta verið margar efnislegar ástæður fyrir því að byggingar hrynja en það er aðeins eitt stórt atriði sem veldur því að það gerist, að mati Ede. Það eru peningar.

Að mati hans er spilling aðalástæðan fyrir því að byggingar hrynja í Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka