Fann töskur á ströndinni

Mynd af einni töskunni sem fannst á ströndinni.
Mynd af einni töskunni sem fannst á ströndinni. Ljósmynd/Stuðningshópur aðstandenda

Talið er mögulegt að persónulegir munir sem fundust undan ströndum Madagaskar tilheyri fólki sem var um borð í flugvél Malaysian Airlines, MH370, en vélin hvarf sporlaust í mars árið 2014 með 239 um borð.

Nýverið fannst brak á svipuðum slóðum sem rannsakendur telja næsta víst að sé úr vélinni. Blaine Gibson, sem fann brakið, segist nú hafa fundið töskur sem hann telur líklegt að hafi verið í eigu fólksins sem var um borð.

Flaks vélarinnar hefur verið leitað í rúm tvö ár. Enn er með öllu óljóst hvar hún hrapaði.

Gibson segist í samtali við CNN hafa fundið 15–20 persónulega hluti, m.a. lítinn bakpoka, veski, tölvutösku og tösku undan símum, á ströndinni við Madagaskar síðustu daga.

Hann segir að hlutirnir séu ekki merktir og því ekki hægt að bera kennsl á þá með einföldum hætti.  Hann hefur hins vegar sent myndir af hlutunum til stuðningshóps aðstandenda þeirra sem voru um borð í vélinni.

Yfirvöld í Ástralíu og Malasíu hafa verið látin vita um fundinn. Þau ætla að sækja hlutina til frekari rannsóknar.

Í maí fannst brak úr vélinni á strönd við Madagaskar. …
Í maí fannst brak úr vélinni á strönd við Madagaskar. Nú hafa nokkrir persónulegir hlutir fundist. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka