Öryggisráðið fordæmir landnemabyggðir Ísraela

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í kvöld ályktun þar sem landnemabyggðir Ísraela á hernumdum svæðum Palestínu eru gagnrýndar harkalega. Tillagan var samþykkt með fjórtán atkvæðum og þótti tíðindum sæta að Bandaríkin beittu ekki neitunarvaldi, líkt og þau gera jafnan í málefnum Ísrael.

Stjórnvöld í Ísrael gagnrýndu bandarísk stjórnvöld og Barack Obama Bandaríkjaforseta harkalega fyrir að hafa ekki beitt neitunarvaldi og í yfirlýsingu frá Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir að Ísraelsmenn vísi þessari skammarlegu ályktun gegn Ísrael á bug og muni hafa hana að engu.

„Á sama tíma og Öryggisráðið gerir ekkert til að stoppa dráp hálfrar milljónar manna í Sýrlandi þá ræðst það gegn eina raunverulega lýðræðisríkinu í Miðausturlöndum og kallar Vesturhlutann „hernumið svæði,“ sagði í yfirlýsingu frá Netanyahu.

Þá sagðist forsætisráðherrann hlakka til samstarfsins með Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna.

Palestínsk yfirvöld fögnuðu hins vegar ályktuninni.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur þegar gagnrýnt ályktunina að því er fram kemur á fréttavef BBC. Í Twitter-skilaboðum sem hann sendi frá sér í kvöld sagði hann „Hvað Sameinuðu þjóðirnar varðar þá munu hlutirnir verða öðruvísi eftir 20. janúar.“  

Öryggisráðið gagnrýndi harkalega landnemabyggðir Ísraela í Palestínu. Tíðindum þótti sæta …
Öryggisráðið gagnrýndi harkalega landnemabyggðir Ísraela í Palestínu. Tíðindum þótti sæta að Bandaríkin beittu ekki neitunarvaldi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert