Dæmdir fyrir að aðstoða flóttadreng

Fredrik Önnevall fréttamaður SVT.
Fredrik Önnevall fréttamaður SVT. Wikipedia/Frankie Fouganthin

Sænskur fréttamaður, Fredrik Önnevall, var í dag dæmdur í 75 daga samfélagsþjónustu ásamt tveimur öðrum fyrir að aðstoða sýrlenskan dreng við að flýja til Svíþjóðar. Saksóknari hafði farið fram á að þeir yrðu dæmdir í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Dómurinn féll í héraðsdómi í Malmö í morgun.

Önnevall var ákærður ásamt tökumanni og túlki fyrir að smygl á 15 ára pilti sem þeir aðstoðuðu við að komast frá Grikklandi til Svíþjóðar. Dómarinn féllst á það með saksóknara að þeir hafi tekið þátt í smygli en ekki að þeir ættu að fá refsidóm fyrir.

Önnevall og félagar hans hittu drenginn vorið 2014 þegar þeir voru að gera heimildarmynd fyrir sænska sjónvarpið um viðbrögð þjóðernisflokka í Evrópu við flóttamönnum sem streymdu til Evrópu.

Tekist var á um það fyrir rétti hvort þeir væru sekir um smygl á fólki þar sem þáðu enga peninga frá drengnum og að sögn verjenda þeirra hafi þeir aðeins veitt honum félagsskap á flóttanum. Dómarinn féllst á að tilgangur þeirra hafi verið mannúð og að þeir hafi ekki aðstoðað drenginn í ábótaskyni.

Tvennt sé ljóst, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms, að sjónvarpsteymið hafi aðstoðað drenginn við að komast í gegnum Evrópu og til Svíþjóðar og að ástæðan fyrir því hafi verið mikil samkennd með honum.

Hins vegar að vegna þess að þeir hafi ferðast á milli ríkja innan Schengen-svæðisins væri ekki mögulegt að sýkna þá á grundvelli mannúðar.

Ein ástæða þess er að þegar þú ferðast í gegnum Evrópu og Schengen-ríki er að þú nýtur sömu verndar og í Svíþjóð, segir Kristina Andersson, dómari við héraðsdóm í Malmö, í samtali við SVT eftir að hafa lesið upp dóminn.

Tekið var fram að drengurinn, sem nú hefur fengið varanlegt dvalarleyfi í Svíþjóð, hafi ekki sótt um hæli strax við komuna til Svíþjóðar.

Önnevall ætlar að áfrýja niðurstöðunni. Hann segir að dómurinn sé kannski ekki þungur en hann geti haft fordæmisgildi og eins vegna þess að hann telji hann einfaldlega ekki réttan.

SVT

DN.se

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert