Heitir því að tryggja frið á skaganum

Moon Jae-In ávarpar blaðamenn í Bláa húsinu í Seúl, þar …
Moon Jae-In ávarpar blaðamenn í Bláa húsinu í Seúl, þar sem forsetinn hefur aðsetur. AFP

Moon Jae-In, nýkjörinn forseti Suður-Kóreu, sór embættiseið í morgun og hét því að taka á efnahagsmálunum og bæta samskiptin við Norður-Kóreu. Hann sagðist jafnvel viljugur til að heimsækja Pyongyang við réttar kringumstæður.

Moon, sem er fyrrverandi mannréttindalögfræðingur og sonur norðurkóreskra flóttamanna, er þekktur fyrir frjálslynd viðhorf sín. Hann hefur lofað því að sameina þjóð sína í kjölfar umfangsmikils spillingarmáls sem varð til þess að forvera hans, Park Geun-Hye, var vikið úr embætti.

Í innsetningarræðu sinni sagðist Moon myndu gera allt til að tryggja frið á Kóreuskaga. „Ef þess er þörf mun ég umsvifalaust fljúga til Washington,“ sagði hann. „Ég mun einnig fara til Pekíng og Tókíó og jafnvel Pyongyang undir réttum kringumstæðum.“

Moon sagðist einnig myndu eiga alvarlegar viðræður við Bandaríkin og Kína vegna Thaad-eldflaugavarnakerfisins.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa ekki tjáð sig um kosningasigur Moon en höfðu áður gefið til kynna að þeim hugnaðist hann best af forsetaframbjóðendunum.

Moon hefur skipað Lee Nak-Yon, ríkisstjóra Suður-Jeolla, í embætti forsætisráðherra og Suh Hoon, sem fór með lykilhlutverk í skipulagningu hinna tveggja Kóreu-ráðstefna 21. aldarinnar, til að fara fyrir leyniþjónustu landsins.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.

Moon sór embættiseið í morgun. Hér er hann ásamt eiginkonu …
Moon sór embættiseið í morgun. Hér er hann ásamt eiginkonu sinni. AFP
mbl.is