Rannsaka fjölda kynferðisbrota í Tysfjord

Tysfjord.
Tysfjord. Wikipedia/Zorrolll

Lögregluyfirvöld í Noregi hafa til rannsóknar fjölda kynferðisbrota í Tysfjord sem ná aftur meira en 30 ár. Lögreglan á staðnum er einnig til rannsóknar vegna framgöngu sinnar og þá hefur kona höfðað mál á hendur staðaryfirvöldum fyrir að taka sig ekki í sína umsjá eftir að faðir hennar var dæmdur fyrir að mistnota hana og önnur börn.

Kynferðisbrotamálin eru fleiri en 120 talsins en Verdens Gang ræddi við 11 fórnarlömb í fyrra og er kunnugt um 47 mál til viðbótar. Málin varða m.a. nauðganir barna og fullorðinna. Lögregla handtók í desember sl. mann sem grunaður er um kynferðisbrot í Tysfjord en hann er sá fyrsti sem er handtekinn í tengslum við rannsóknina.

VG hefur eftir lögreglumanninum Øyvind Rengård að sumir hafi getað gefið greinargóðar lýsingar á brotunum en í sumum málanna séu upplýsingarnar af skornum skammti. Sum fórnarlambanna hafi verið beitt kynferðisofbeldi af fleiri en einum.

Fórnarlömbin eru talin vera í kringum 70 og hinir seku 80. Brotin áttu sér aðallega stað gegn stúlkum yngri en 16 ára. Sum þeirra eru fyrnd en önnur nýlegri. Lögregla segist telja að gefnar verði út ákærur í fleiri málum en þegar hefur verið gert.

Umfjöllun Verdens Gang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert