Björguðu börnum frá skógareldum

Skógareldar loga glatt á vesturströnd Bandaríkjanna og í Kanada.
Skógareldar loga glatt á vesturströnd Bandaríkjanna og í Kanada. AFP

Slökkviliðsmenn björguðu um 90 börnum og 50 fullorðnum einstaklingum sem voru í sjálfheldu á tjaldsvæði í Whittier í Kaliforníu vegna skógareldanna sem geisa á vesturströnd Bandaríkjanna og í Kanada. Þúsundir íbúa hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna þeirra. Skógareldarnir kviknuðu fyrir fjórum dögum og reynist allt björgunarstarf erfitt vegna mikilla þurrka og hita. BBC greinir frá. 

Aldrei hefur þurft að rýma jafnmörg heimili vegna skógareldanna í fylkinu Bresku-Kólumbíu í Kanada og nú. Yfir tíu þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna þeirra og neyðarástandi hefur verið lýst yfir.  

Alls hefur verið tilkynnt um skógarelda á 200 stöðum á landsvæðinu og eru þeir misstórir.  

Rúmlega þúsund slökkviliðsmenn hafa barist við skógareldana í Kaliforníu sem eru einna skæðastir í San Luis Obispo-héraðinu. Alls hafa 117 ferkílómetrar skóglendis orðið eldinum að bráð, að sögn slökkviliðsstofnunar Kaliforníu.

Talið er nokkuð líklegt að slökkvistarf muni halda áfram næstu daga því eingöngu hefur náðst að hefta útbreiðslu skógareldanna um 15%.  

Engar fregnir hafa borist af dauðsföllum vegna skógareldanna en fjórir hafa slasast vegna eldanna.  

Að minnsta kosti 20 byggingar hafa eyðilagst vegna skógareldanna og 150 eru í hættu. 

Skógareldar eru tíðir yfir sumartímann á þessu svæði en hitinn hefur farið mest í 42 gráður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert