Tyrkir orðnir leiðir á að bíða

Forsetarnir Recep Tayyip Erdogan og Emmanuel Macron.
Forsetarnir Recep Tayyip Erdogan og Emmanuel Macron. AFP

Stjórnmálaþróunin í Tyrklandi er hindrun í vegi inngöngu landsins í Evrópusambandið. Þetta sagði Emmanuel Macron, forseti Frakklands, á blaðamannafundi í París í dag. Lagði hann þess í stað til að gerður yrði samstarfssamningur við Tyrki.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan sem er staddur í heimsókn í Frakklandi, tók einnig til máls og sagði Tyrki búna að fá nóg af því að bíða eftir því að geta gengið í Evrópusambandið eftir að hafa beðið í hálfa öld eftir því.

Macron sagði að síðustu atburðir í Tyrklandi og ákvarðanir tyrkneskra stjórnvalda þýddu að ekki væri hægt að taka nein skref í þessum efnum. Sagði Frakklandsforseti að það væri lygi ef hann segði að hægt yrði að opna fleiri viðræðukafla.

Stjórnvöld í Tyrklandi höfðu vonast til þess að hægt yrði að bæta samskiptin við Evrópusambandið með heimsókn Erdogans en handtökur á blaðamönnum í landinu hafa varpað skugga á heimsóknina samkvæmt frétt AFP.

Hvorki Macron né Erdogan leyndu svartsýni sinni á það að Tyrkland ætti eftir að ganga í Evrópusambandið í framtíðinni. Macron sagði forsetana hafa rætt málið í hreinskilni. Tilgangslaust væri að láta eins og allt gengi eðlilega.

Erdogan sagði þetta mjög þreytandi fyrir Tyrki. Sagði hann að hugsanlega yrði að taka afgerandi ákvörðun í málinu án þess að tilgreina hvað hann ætti við. Sakaði hann Evrópusambandið um að gefa ekki haldbærar skýringar á töfunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka