Sparsamur milljarðamæringur

Mynd og bók til minningar um Ingvar Kamprad, af stofnanda …
Mynd og bók til minningar um Ingvar Kamprad, af stofnanda IKEA, í verslun í Stokkhólmi. AFP

Ingvar Kamprad, stofn­andi IKEA, lést í dag 91 árs að aldri. Hann var milljarðamæringur og einn af ríkustu íbúum Evrópu en hann stofnaði IKEA þegar hann var 17 ára gamall. Það er óhætt að segja að hann hafi ekki lifað um efni fram því hann var þekktur fyrir sparsemi.

Hann keyrði um á gömlum Volvo, keypti fötin sín á flóamarkaði, tók nesti með sér í vinnuna og flaug ekki á fyrsta farrými svo fátt eitt sé nefnt. Honum var mikið í mun um að sýna gott fordæmi og var ætíð trúr gildum sínum.   

Aðhaldssemi í fjármálum sagði hann að honum væri í blóð borið. „Það er í eðli íbúa Smá­landa að sýna aðhalds­semi,“ sagði Kamprad í heimildarmynd um hann sem var sýnd í sænska sjónvarpinu í fyrra. Eitt af því sem gerði IKEA að stór­veldi má rekja til lágs vöru­verðs sem alltaf hef­ur ein­kennt fyrirtækið.  

AFP

Kamprad  virðist ekki hafa verið mikið fyrir kastljós fjölmiðlanna og náði hann að stórum hluta að halda persónulegu lífi sínu fyrir sig. Fyrri kona hans hét Kerstin Wadling og ættleiddu þau dótturina Anniku. Seinni eiginkona hans hét Margaretha Kamprad-Stennert og eignaðist hann með henni þrjá syni, Peter, Jonas og Matthias.

Kamprad stofnaði fyrirtækið þegar hann var 17 ára gamall seldi skrifstofuvörur meðal annars vélritunarvörur, penna og myndaramma sem hann keyrði út á hjólinu sínu. Hann áttaði sig fljótlega á því að hann græddi á því að bjóða samkeppnishæfar vörur á lægra verði.

Árið 1947 fór hann að selja húsgögn og skömmu síðar bauð hann til sölu húsgögn í handhægum pakkningum sem kaupandinn setti sjálfur saman. Hugmyndin kviknaði þegar hann horfði á mann  taka fætur undan borði áður en hann kom því fyrir upp á bílnum. Árið 1958 opnaði fyrsta IKEA búðin í borginni Almhult í Smálöndunum. Nafn verslunarinnar er sett saman úr nafni hans, sveitabænum Elmtaryd sem fjölskyldan bjó og A stendur fyrir þorpið Aunnaryd.

Eftir að fyrsta verslunin var stofnuð var ekki aftur snúið og IKEA verslununum hélt áfram að fjölga jafnt og þétt og allan heim. Vörulisti IKEA er með þeim vinsælustu í heiminum enda er hann prentaður í 200 milljón eintökum á 33 tungumálum og sendur inn á fjölmörg heimili. IKEA-listinn er sagður vinsælli en biblían. Í dag er IKEA verslanirnar orðnar 389 um allan heim.

Líklega er vinsælasta vara IKEA í dag Billy bókhillan. Gillis Lundgren hannaði hana árið 1979 og selst hún á 10 sekúndna fresti í verslunum IKEA.

Flaggaði í hálfa stöng við IKEA í Garðabæ.
Flaggaði í hálfa stöng við IKEA í Garðabæ. AFP

Árið 2016 voru eign­ir Kamprads séu metn­ar á 610 millj­arða sænskra króna sem svar­ar til 9.300 millj­örðum ís­lenskra króna. Hins veg­ar er erfitt að greina hvað til­heyri hon­um sjálf­um, börn­um hans og hvað sé í sam­eig­in­leg­um sjóði fjöl­skyld­unn­ar í skattap­ara­dís­inni Liechten­stein.

Árið 1973 flúði Kamprad skatta í heima­land­inu til Dan­merk­ur og þaðan flutti hann til Sviss þar sem skatt­ar eru enn lægri. Árið 2014 flutti hann síðan lög­heim­ili sitt til Svíþjóðar.

Undanfarið hefur verið deilt um skattgreiðslur IKEA á sex ára tímabili. Talið er að IKEA hafi komist hjá því að greiða að minnsta kosti 1 millj­arð evra í skatta í Evr­ópu á sex ára tíma­bili með því að not­ast við flókið net eign­ar­halds­fé­laga og greiða einka­leyf­is­gjöld til dótt­ur­fé­laga inn­an sam­stæðunn­ar sem voru staðsett þar sem hægt var að kom­ast hjá skatt­greiðslum af hagnaði af einka­leyf­um.

Árið 2013 var fjölskyldudeila og honum var gert að afhenda sonum sínum milljónir dollara vegna eigna sem hann var skráður fyrir persónulega.

AFP

Fyrir nokkrum árum var hann einnig gagnrýndur fyrir tengsl sín við sænska nasistaflokkinn í seinni heimsstyrjöldinni. Hann kom fram í fjölmiðlum og baðst afsökunar á að hafa aðhyllst stefnu flokksins á sínum tíma og sagði það barnaskap sem hann sjái eftir núna.

Fjölmargir hafa minnsta hans á samfélagsmiðlum í dag. Á Íslandi er flaggað í hálfa stöng. Karl Gustaf  konungur Svíþjóðar, sagði hann „frumkvöðul“ sem hafi komið „Svíþjóð á heimskortið“. Stefan Lofven sagði hann hafa „gert húsgögn fáanleg fyrir fjölmarga en ekki eingöngu fáa“.

Heimildir meðal annars BBC og AFP-fréttaveitan

mbl.is

Bloggað um fréttina