Trump hefur ekki tekið ákvörðun

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ekki enn tekið endanlega ákvörðun um það hvort Bandaríkin segi sig frá kjarnorkusamkomulaginu við Íran sem undirritað var árið 2015. Þetta er haft eftir John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, í frétt AFP.

„Hann hefur ekki tekið neina ákvörðun varðandi kjarnorkusamkomulagið, hvort Bandaríkin verði áfram aðilar að því eða segi skilið við það,“ sagði Bolton í dag og bætti því við að Trump væri hins vegar að skoða málið og íhuga þær tillögur sem Emmanuel Macron, forseti Frakklands hefði lagt fram í heimsókn hans til Bandaríkjanna á dögunum.

Þar er vísað til hugmynda um að í stað þess að rifta kjarnorkusamkomulaginu verði bætt við atriðum til þess að koma til móts við gagnrýni Trumps á það. Einnig hefur verið upplýst af Hvíta húsinu að Trump hafi rætt málið við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.

„Leiðtogarnir tveir ræddu áframhaldandi ógn og áskoranir sem Miðausturlönd standa frammi fyrir, einkum vandamál tengd aðgerðum íranskra stjórnvalda sem aukið hafa á óstöðugleika,“ segir í tilkynningu Hvíta hússins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert