Hattur Napóleons á uppboði

Hatturinn sem seldur verður í dag.
Hatturinn sem seldur verður í dag. AFP

Tvíhornahattur, sem tilheyrði herklæðum Napóleon Bonaparte, verður seldur á uppboði í Lyon í Frakkalandi í dag. Sagan segir að hatturinn hafi verið hirtur af vígvellinum eftir ósigur leiðtogans frækna við Waterloo árið 1815.

Franski keisarinn var þekktur fyrir tvíhornahatta sína sem draga nafn sitt af lögun og útliti en á ensku eru þeir kallaðir „bicorne“-hattar.  Herklæði Napóleon hafa verið hornsteinn margra fornmunasafnara í gegnum tíðina en samkvæmt vef BBC má búast við því að kaupverð hattsins verði allt að 35.000 sterlingspund eða tæpar fimm milljónir króna.

Hatturinn er sagður vera einn af nítján úr eigu Napóleon sem hafa varðveist. Talið er að á ferli hans hafi um 120 sams konar hattar setið á kolli hans á einhverjum tímapunkti. Undir venjulegum kringumstæðum átti hann tólf hatta innan handar hverju sinni en hver þeirra var í eigu hans ekki lengur en í þrjú ár í senn. Þá var Napóleon þekktur fyrir að bera hattinn öfugt þannig að hornin vísuðu út til hliðanna. Með þessu móti var hægt að þekkja hann á vígvellinum.

Sams konar hattur sem keisarinn bar í orrustunni við Marengo árið 1800 seldist fyrir fjórum árum á tæpar 240 milljónir króna en sá hattur er talinn hafa verið í betra ástandi en sá sem boðið verður í í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert