Kona Netanjahú ákærð fyrir fjársvik

Sara og Benjamín Netanjahú.
Sara og Benjamín Netanjahú. AFP

Sara Netanjahú, eiginkona Benjamins Netanjahú forsætisráðherra Ísrael, var í dag ákærð fyrir fjársvik og trúnaðarbrot eftir að rannsókn lögreglu á ásökunum í garð hennar lauk. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneyti landsins.

Ásakanir á hendur forsætisráðherrafrúnni komu fram í fyrra en hún er sögð hafa ranglega tilkynnt að engir kokkar væru til staðar á skrifstofu forsætisráðherrans og því gripið til þess að kaupa mat af utanaðkomandi veisluþjónustu á kostnað almennings.

Fjárhæð þess svikna er yfir 350.000 ísraelskir skildningar eða sem nemur um 10,5 milljónum króna. Hún neitar sök.

Rannsókn stendur einnig yfir á gjörðum forsætisráðherrans sjálfs en hann er grunaður um spillingu. Í einu tilfelli eru hann og fjölskyldumeðlimir sagðir hafa þegið lúxusvindla, kampavín og skartgripi að verðmæti 30 milljóna króna í skiptum fyrir greiða.

Þá er forsætisráðherrann grunaður um að hafa reynt að landa samningum við eiganda Yediot Aharonot, eins stærsta dagblaðs Ísraels, um jákvæðari fréttaflutning í garð ríkisstjórnar hans.

Netanjahú hefur lýst yfir sakleysi sínu og segir sig vera fórnarlamb „nornaveiða“.

Þrátt fyrir vandræð þeirra hjóna benda skoðanakannanir til að hægriflokkur hans, Likud, verði áfram stærsti flokkur landsins en þingkosningar verða haldnar í Ísrael í nóvember á næsta ári. Flokkurinn hefur 30 sæti af 120 á ísraelska þinginu.

mbl.is