Wikipedia lá niðri í mótmælaskyni

Wikipedia lá niðri í þremur Evrópulöndum í dag vegna fyrirhugaðrar …
Wikipedia lá niðri í þremur Evrópulöndum í dag vegna fyrirhugaðrar atkvæðagreiðslu um breytingar á lögum um höfundarréttarvarið efni. mbl.is

Wikipedia lá niðri í að minnsta kosti þremur Evrópuríkjum í dag í mótmælaskyni en á morgun tekur Evrópuþingið til atkvæðagreiðslu umdeildar lagabreytingar vegna höfundarréttarvarins efnis á netinu.

Á Spáni, Ítalíu og Póllandi fengu Wikipedia-notendur ekki upp upplýsingar um stórstjörnur, sögulega atburði eða eitthvað allt annað sem þeir leituðu að á Wikipedia, heldur texta sem greindi frá mótmælunum og voru notendur hvattir til að heyra í Evrópuþingmönnunum sínum.

„Þessi reglugerð yrði mikið ógn við netfrelsi. Hún hefur í för með sér nýjar síur, nýjar hömlur og fleiri þröskulda á veraldarvefnum,“ sagði í tilkynningu spænsku Wikipedia-síðunnar.

Evrópuráðið segir Wikipedia og aðrar alfræðiorðabækur á netinu ekki falla undir gildissvið laganna, en Jimmy Wales, stofnandi Wikipedia, og Evrópuþingmaður Græningja, Julia Reda, fullyrða að svo sé.

Þá segja gagnrýnendur lagabreytinganna að þær hafi í för með sér aukna ritskoðun tæknirisanna og geri síður sem miðla skoðanaskiptum notenda ábyrgar fyrir höfundarréttarvörðu efni sem notendur síðanna setja á vefinn. Þá gætu tæknifyrirtæki á borð við Google og Facebook þurft að greiða fyrir aðgang að fréttaefni sem fréttaveitur á borð við AFP segja vera risastórt skref.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert