Fannst á lífi viku eftir bílslys

Viðbragðaðilar hlúa að Hernandez í fjörunni, þar sem hún hafði …
Viðbragðaðilar hlúa að Hernandez í fjörunni, þar sem hún hafði dvalið í heila viku. Ljósmynd/Twitter-síða fógetans í Monterey-sýslu

Bandarísk kona, sem keyrði jeppabifreið fram af snarbröttum kletti í Big Sur í Kaliforníu-ríki og hrapaði 60 metra niður í fjöru, hefur fundist á lífi, viku eftir að fjölskylda hennar tilkynnti að hennar væri saknað.

Konan heitir Angela Hernandez og er 23 ára gömul, en hún lifði af í fjörunni með því að nota slöngu úr vatnskassa bílsins til þess að ná til vatns úr lækjarsprænu, en bíll hennar maraði í hálfu kafi í sjónum.

Hún var með meðvitund er göngufólk fann hana á föstudag, en var meidd á öxl og virtist hafa fengið heilahristing, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Hernandez sagði lögreglu að hún hefði keyrt út af eftir að hafa sveigt frá dýri á veginum, en hún var á leið frá Portland til Los Angeles að heimsækja systur sína er slysið varð.

Haft er eftir talsmanni lögreglustjórans í Monterey-sýslu að konan sé heppin að vera á lífi, enda fallið hátt.

Frétt BBC um málið.

18:13 - Fréttin hefur verið uppfærð: Í upphaflegri útgáfu fréttar BBC um málið stóð að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefði konan drukkið vatn úr vatnskassa bílsins til þess að lifa af í fjörunni. Það er ekki rétt og hefur nú verið leiðrétt á vef breska ríkisútvarpsins, en hið rétta er að konan nýtti slöngu úr vatnskassanum til þess að drekka vatn úr lækjarsprænu í fjörunni. Beðist er afsökunar á þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert