Kafararnir fengu friðhelgi

Kafari að störfum inni í hellinum.
Kafari að störfum inni í hellinum. AFP

Tveir ástralskir kafarar, sem aðstoðuðu við björgun drengjanna úr hellinum á Taílandi, fengu friðhelgi áður en aðgerðir hófust. Var það gert svo að ekki væri hægt að sækja þá til saka ef eitthvað hefði farið úrskeiðis, segir í frétt BBC um málið. 

Drengirnir tólf og fótboltaþjálfari þeirra voru innlyksa í hellinum í allt að átján daga áður en taílenskir hermenn með aðstoð alþjóðlegs björgunarliðs gátu bjargað þeim út. Það tók þrjá daga að flytja drengina úr hellinum og var aðgerðin mjög áhættusöm.

Svæfingarlæknirinn Richard Harris og félagi hans, Craig Challen, eru sérhæfðir hellakafarar og léku lykilhlutverk í björguninni.

Þátttaka þeirra kom í kjölfar viðræðna milli ástralskra og taílenskra yfirvalda sem sömdu um friðhelgi þeirra þannig að ef eitthvað færi úrskeiðis væri ekki hægt að lögsækja þá af þeim sökum. Þetta hefur bandaríska ABC-sjónvarpsstöðin eftir heimildarmönnum sínum.

Drengirnir minnast kafarans Saman Kunan sem lést við björgunarstörfin í …
Drengirnir minnast kafarans Saman Kunan sem lést við björgunarstörfin í hellinum. AFP

Utanríkisráðuneyti Ástralíu vill hvorki neita né játa að svo hafi verið bundið um hnúta og vísar á taílensk stjórnvöld. 

Björgunaraðgerðin „var upp á líf og dauða“ og frá upphafi var vitað að brugðið gæti til beggja vona, sagði Challen við fréttamenn eftir að hann sneri heim til Ástralíu á ný.

„Þetta var ekki hættulegt fyrir okkur en ég get ekki lagt nógu ríka áherslu á hversu áhættusamt þetta var fyrir krakkana,“ segir hann. 

Drengjunum voru gefin deyfilyf svo að þeir „vissu ekki hvað var í gangi“ að sögn Challens. Hann segir þetta hafa verið gert til að lágmarka hættuna á því að þeir fengju kvíðakast á leiðinni út sem var mjög þröng á köflum. „Þeir fengu lyf. Við viljum ekki hafa hrædda krakka þana, þeir hefðu getað drepið sjálfa sig og jafnvel drepið björgunarmenn líka.“ 

Ekki viss um að koma honum út á lífi

Kafararnir æfðu sig m.a. með því að kenna börnum á svipuðu reki að kafa í sundlaug skammt frá hellinum. Þannig undirbjuggu þeir sig fyrir að kenna drengjunum tólf að kafa. 

Breski kafarinn Jason Mallinson segir að göngin hafi verið þröng og þar hafi verið algjört myrkur. Hann flutti einn drengjanna út úr hellinum.  „Ég var viss um að við myndum ná honum út. En ég var ekki 100% viss um að ég myndi ná honum út á lífi.“

Hann segist hafa vitað að ef drengurinn hefði skollið á veggjum ganganna hefði öndunargríma hans getað losnað og þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. 

Læknar segja að drengirnir, sem nú eru að jafna sig á sjúkrahúsi, séu við góða heilsu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert