Mætt til starfa á ný

Jacinda Ardern og maður hennar Clarke Gayford ásamt dóttur þeirra …
Jacinda Ardern og maður hennar Clarke Gayford ásamt dóttur þeirra Neve. AFP

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, hefur snúið aftur til starfa, sex vikum eftir að hún eignaðist dóttur sína Neve. Stúlkan mun fylgja móður sinni á fund hjá Sameinuðu þjóðunum í næsta mánuði.

Ardern, sem er 38 ára, segist hlakka til að hefja störf á ný. Hún var umvafin fréttamönnum er hún hóf störf í gær. Fram yfir helgi ætlar hún að vinna frá heimili sínu í Auckland en svo mun hún snúa til skrifstofunnar í Wellington.

Maður hennar, þáttastjórnandinn Clarke Gayford, verður heimavinnandi næstu mánuðina. Ardern segist vita að um óvenjulegar aðstæður sé að ræða og að hún sé þakklát fyrir stuðning samtarfsmanna og almennings. Hún segist þó vonast til þess að þetta þyki ekki tiltökumál í framtíðinni.

Á fundinum hjá Sameinuðu þjóðunum í New York verður fjallað um konur og börn. Það finnst Ardern viðeigandi. 

Hún segist ekki hafa haft miklar áhyggjur af stjórn landsins í fæðingarorlofinu. „Ég hafði meiri áhyggjur af því að næra [dótturina], svefni og bleiuskiptum.“

Ardern varð forsætisráðherra í október, þremur mánuðum eftir að hún tók við forystu í Verkamannaflokknum. 

Fyrsta konan í sambærilegri valdastöðu sem átti barn á meðan hún gegndi embætti var Benazir Bhutto, forsætisráðherra Pakistans. Hún sagði fáum frá óléttunni, gekkst undir keisaraskurð og sneri til vinnu strax. Þetta var í janúar árið 1990.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert