Köstuðu bensínsprengjum úr bátnum

Átta lík hafa fundist undan ströndum Túnis síðan atvikið átti …
Átta lík hafa fundist undan ströndum Túnis síðan atvikið átti sér stað á föstudag. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Átta lík hafa fundist í Miðjarðarhafinu, undan ströndum Túnis, síðan þarlendar öryggissveitir lentu í átökum við hóp farandfólks sem hugðist sigla til Ítalíu á föstudag.

Talsmaður þjóðvarðaliðs Túnis sagði AFP að þjóðerni þeirra sem fundist hafa látnir á hafinu hafi enn ekki verið ákvarðað og að leit að líkum standi enn yfir á hafi úti.

Öryggissveitir lögreglu stöðvuðu för farandfólksins, sem hafði lagt upp frá borginni Sfax í Túnis og stefndi til Ítalíu á ólögmætan hátt. Farþegar bátsins köstuðu bensínsprengjum yfir í bát lögreglumanna en síðan kviknaði eldur í bát þeirra og þá reyndu þeir að flýja.

Fjórir Túnisar voru handteknir í bátnum, auk átta manna frá Fílabeinsströndinni og tveggja frá Kongó, sagði talsmaður þjóðvarðsliðsins.

Sífellt fleiri Túnisar leggja upp í hættuför yfir Miðjarðarhaf til þess að leita atvinnu og betra lífs í Evrópu. Á fyrri helmingi ársins sem nú er að líða voru um 2.660 manns handtekin í Túnis fyrir tilraunir til þess að fara yfir Miðjarðarhafið, en á sama tímabili í fyrra var fjöldi handtekinna einungis 564.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert