Skotinn eftir níu sekúndur

Árásin átti sér stað 31. ágúst.
Árásin átti sér stað 31. ágúst. AFP

Nítján ára gamall afganskur maður, sem stakk og særði tvo bandaríska ferðamenn í Amsterdam í Hollandi, var skotinn aðeins níu sekúndum eftir að hann gerði árás. Frá þessu greinir lögreglustjórinn í hollensku höfuðborginni.

Pieter-Jaap Aalbersberg segir að sérhæfður lögreglumaður hafi verið að fylgjast með Afgananum unga þegar hann dró upp hníf á aðallestarstöðinni í borginni. Stuttu síðar var hann skotinn í mjöðmina. 

Lögmaður árásarmannsins greindi ennfremur frá því að hann hefði ætlað sér að deyja í árásinni, að því er fram kemur á vef BBC.

Lögreglumenn og tæknideild lögreglunnar á vettvangi.
Lögreglumenn og tæknideild lögreglunnar á vettvangi. AFP

Þar segir að maðurinn, Jawed S., sé hælisleitandi sem kom til Þýskalands árið 2015. Hann ferðaðist með lest til Amsterdam á föstudaginn. Þýsk yfirvöld segjast hafa fengið ábendingu í febrúar um að hann hefði snúist til öfgahyggju eftir að hafa dvalið á heimili fyrir ungmenni í Þýskalandi. 

Lögmaður Jaweds segir að maðurinn hafi talið að hann myndi ekki sleppa lifandi frá árásinni því hann skildi eftir sig erfðaskrá í Þýskalandi. Talið er að hann hafi skipulagt árásina eftir að hafa heyrt af skopmyndakeppni sem stjórnmálamaðurinn og þjóðernissinninn Geert Wilders hvatti til. Einnig vegna myndskeiðs sem hafði verið birt sem sýndi Múhameð spámann. 

Farþegar við aðallestarstöðina í Amsterdam.
Farþegar við aðallestarstöðina í Amsterdam. AFP

Ákæruvaldið í Hollandi sagði fyrr í þessari viku að þetta hefði verið hryðjuverkaárás og Jawed hefði verið þeirrar skoðunar að Holland hefði smánað spámanninn, íslam og kóraninn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert