Vatnsskál sem kostar hana jafnvel lífið

Ashiq Masih, eiginmaður Asia Bibi, sést hér benda á veggspjald …
Ashiq Masih, eiginmaður Asia Bibi, sést hér benda á veggspjald þar sem þess er beðið að hún verði látin laus. AFP

Hæstiréttur Pakistan mun í dag taka fyrir mál fimm barna móður sem hefur verið dæmd til dauða fyrir guðlast. Ef dómur undirréttar verður staðfestur verður hún fyrsta manneskjan sem er tekin af lífi fyrir guðlast í landinu.

Asia Bibi hefur verið á dauðadeild frá árinu 2010 en það ár tók meðal annars Benedikt XVI páfi þátt í að krefjast lausar hennar. Árið 2015 átti dóttir Bibi fund með Frans páfa sem einnig hefur farið fram á að hún verði látin laus. Bibi, sem er kristin, var dæmd til dauða fyr­ir guðlast þegar hún lenti í rifr­ildi við mús­limska konu vegna vatns­skál­ar. 

Ekki liggur ljóst fyrir hvort hæstiréttur kveður upp dóm sinn í dag. Ef dauðadómurinn verður staðfestur er það aðeins forseti landsins sem getur komið í veg fyrir aftökuna.

Harðlínumenn krefjast þess að hún verði tekin af lífi. Þar á meðal Rauða moskan í Islamabad og Tehreek-e-Labaik Pakistan (TLP). 

Varað er við því að ef Bibi verður tekin af lífi þá sé líklegt að öfgafullum popúlistum vaxi fiskur um hrygg í Pakistan og um leið yrði það mikið áfall fyrir kristna sem eru í minnihluta í Pakistan og eru fórnarlömb mismununar á grundvelli trúar sinnar.

Mál Bibi nær aftur til ársins 2009 þegar hún var við vinnu og beðin um að sækja vatn. Kona sem hún var að vinna með neitaði því hins vegar að Bibi mætti snerta vatnsskálina þar sem hún væri ekki múslimi. Konan fór síðan til klerksins í bænum og sakaði Bibi um guðlast gegn Múhameð spámanni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert