Takmarka fóstureyðingar gegn stuðningi

Erna Solberg,forsætisráðherra Noregs, hefur opnað á að herða lög um ...
Erna Solberg,forsætisráðherra Noregs, hefur opnað á að herða lög um fóstureyðingar til þess að tryggja ríkisstjórninni áframhaldandi stuðning Kristilega þjóðarflokksins. AFP

Hugmyndir um að banna fóstureyðingu umfram tólftu viku þrátt fyrir að fóstur greinist með alvarlegan sjúkdóm eða litningagalla, þar á meðal downs-heilkenni, er síðasta útspil forsætisráðherra Noregs og formanns hægriflokksins, Ernu Solberg, til þess að lengja lífdaga ríkisstjórnarinnar. Óvissa ríkir um hvort Kristilegi þjóðarflokkurinn mun áfram verja ríkistjórn Solbergs falli.

Ríkisstjórn Solbergs er minnihlutastjórn til hægri og hefur hún starfað frá 2013 á grundvelli þess að Kristilegi þjóðarflokkurinn og Venstre, sem gerðist aðili að ríkisstjórninni á þessu ári, hafa varið ríkistjórnina falli.

Nýlega lýsti hinsvegar Knut Arild Hareide, formaður Kristilega þjóðarflokksins, áhuga sínum á því að falast eftir mögulegu ríkisstjórnarsamstarfi með vinstriflokkunum, en flokkur hans hefur verið að kljást við dræmt fylgi síðustu ár.

Knut Arild Hareide, formaður Kristilega þjóðarflokksins.
Knut Arild Hareide, formaður Kristilega þjóðarflokksins. Stortinget.no

Skilyrt við stuðning

Tillaga Hareide um að leita til vinstri mun verða borin upp á landsfundi flokksins 2. nóvember og samkvæmt Aftenposten er hart barist um hvern landsfundarfulltrúa milli stríðandi fylkinga. Sumir velta fyrir sér hvort niðurstaða landsfundarins mun hafa áhrif á formennsku Hareide, að því er segir í umfjöllun VG.

Solberg sagðist á fimmtudag reiðubúin til þess að skoða breytingar á gildandi ákvæðum laga sem heimila fóstureyðingar umfram tólftu viku í tilfelli litningagalla og alvarlegra sjúkdóma, ef Kristilegi þjóðarflokkurinn lýsir vilja til þess að gerast aðili að ríkisstjórnarsamstarfi hægriflokksins, Venstre og Framfaraflokksins.

Gagnrýna Solberg

Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, sagði í gær á landsfundi ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins að það kæmi ekki til greina að hans hálfu að koma til móts við stefnu sem fæli í sér herðingu skilyrða fyrir fóstureyðingar.

Trygve Slagsvold Vedum, formaður Miðflokksins, sakaði á föstudag Solberg um að opna á útboð í siðferðismálum með að lýsa því yfir að hún væri reiðubúin til þess að endurskoða eigin afstöðu til þess að lengja líftíma ríkisstjórnarinnar. Undir þessi orð tók Støre í gær.

Ekki er ljóst með framhaldið, en svo virðist sem andstæðingar samstarfs til vinstri innan Kristilega þjóðarflokksins séu að sækja í sig veðrið ef marka má kortlagningu norskra fjölmiðla, til að mynda  NRK .

mbl.is
Vönduð vel búin kennslubifreið
Vönduð, vel búin kennslubifreið Subaru XV 4WD . Akstursmat og endurtökupróf. Gyl...
Hreinsa þakrennur fyrir veturinn
Hreinsa þakrennur, fyrir veturinn og tek að mér ýmis smærri verkefni. Uppl. í sí...
Byggingastjórn - Húsasmíðameistari
Löggiltur byggingarstjóri og húsasmíðameistari Tek að mér: - byggingarstjór...
Fullbúin íbúð til leigu til áramóta !
Íbúðin er 3ja herb. í Norðlingaholti á efstu hæð með lyftu. leigist með húsgö...