Vilja þjóðaratkvæði um bankabandalagið

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dönsk stjórnvöld hafa ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvort Danmörk verði hluti af bankabandalagi Evrópusambandsins en forsætisráðherra landsins og leiðtogi frjálslynda flokksins Venstre, Lars Løkke Rasmussen, hefur hins vegar kallað eftir því.

Fram kemur á fréttavef dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 að Rasmussen hafi vísað í því sambandi til hneyklismála sem komið hafa upp í dönsku fjármálalífi að undanförnu þar sem peningaþvætti með alþjóðlegar tengingar hefur meðal annars komið við sögu.

Sagði Rasmussen á dögunum að það benti sífellt fleira til þess að skynsamlegt væri fyrir Danmörku að taka þátt í bankabandalaginu. Einkum til þess að bregðast við lögbrotum þvert á landamæri. Hins vegar væri vitanlega að mörgu að huga í þeim efnum.

Formaður Jafnaðarmannaflokksins, Mette Frederiksen, segir hins vegar að ekki sé tímabært að taka afstöðu til bankabandalagsins. Til þess þurfi meiri umræðu og upplýsingar. Hins vegar vilja jafnaðarmenn að danskir kjósendur fái að koma að þeirri ákvörðun.

Ljóst væri að Danir væru ekki sammála um stöðu Danmerkur í Evrópusambandinu. Fyrir vikið væri heppilegast fyrir lýðræðislega umræðu í landinu að skorið yrði úr um mögulega aðild að bankabandlagi sambandsins með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert