„Afhjúpaðir með leyniupptöku“

Skjáskot af efstu frétt vefsíðu NRK í morgun.
Skjáskot af efstu frétt vefsíðu NRK í morgun. Ljósmynd/Vefsíða NRK

Efsta frétt á síðu norska ríkisútvarpsins NRK nú í morgunsárið fjallar um barför íslenskra þingmanna og kallar NRK málið „þriðja kollrakið í íslenskum stjórnmálum á innan við þremur árum“ (n. tredje gang på under tre år at Island blir rammet av en politisk skandale) og vísar til Wintris-máls Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar 2016 og hlutabréfaviðskipta Bjarna Benediktssonar rétt fyrir hrun sem í hámæli komust í fyrra.

Er barferðin örlagaríka rakin í frétt NRK sem ber yfirskriftina „Íslenskir stjórnmálamenn afhjúpaðir með leyniupptöku“ og þar greint frá ýmsum uppnefnum, svo sem að Unnur Brá Konráðsdóttir hafi verið kölluð kerfiskerling (n. byråkratisk drittkjerring) og Oddný Harðardóttir apaköttur en sneitt fram hjá smjörumfjöllun Gunnars Braga Sveinssonar og ummælum Bergþórs Ólasonar.

„Sá sem verst kemur út úr efni upptökunnar er fyrrverandi utanríkisráðherrann Gunnar Bragi Sveinsson,“ skrifar NRK og rifjar upp för Gunnars Braga á rakarastofuráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2015 sem einmitt snerist um ofbeldi gegn konum.

Greinir NRK að lokum frá viðtali Gunnars Braga við Rás 2 eftir atburðinn, að hann hafi þar játað á sig skammarleg ummæli en engu að síður sé krafa um afsögn hans og fleiri úr barhópnum komin til umræðu á Alþingi og í íslensku samfélagi.

„Að þessu sinni er forsætisráðherrann þó ekki viðriðinn málið,“ klykkir NRK út í frétt sinni. „Hún er nefnilega kona og heitir Katrín Jakobsdóttir.“

Umfjöllun NRK um upptökumálið.

mbl.is