Merkel með „svindlmiða“

Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu á fundi G20-ríkjanna í Argentínu.
Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu á fundi G20-ríkjanna í Argentínu. AFP

Á fundi Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á ráðstefnu G20-ríkjanna í síðustu viku, mátti sjá að Merkel hélt á skjali með upplýsingum um Morrison. Morrison er fimmti forsætisráðherra Ástralíu frá árinu 2013. Ríkisstjórnir beggja landanna neita því að uppákoman hafi verið neyðarleg. „Ráðuneyti Angelu Merkel var örugglega, án vafa, að gæta þess að kanslarinn hefði réttar upplýsingar,“ segir Simon Birmingham, viðskiptaráðherra Ástralíu. 

Á skjölunum sem Merkel hélt á og las á fundinum, sem fjöldi ljósmyndara var viðstaddur, mátti m.a. sjá mynd af ástralska forsætisráðherranum. Þetta segir Birmingham ekkert óvanalegt. 

Annað fannst sumum netverjum sem gerðu stólpagrín að uppákomunni. „Svo að Angela Merkel þurfti svindlmiðla er hún hitti Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu,“ skrifar einn þeirra á Twitter. „Ég skil hana vel. Ég bý [í Ástralíu] og ég veit samt ekkert um hann.“

Frá því að Merkel varð kanslari árið 2005 hafa sex gegnt embætti forsætisráðherra Ástralíu. Morrison varð forsætisráðherra í ágúst, eftir að Macolm Turnbull var þvingaður til afsagnar af andstæðingum sínum innan flokks síns.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka