„Það vilja allir gera kvikmynd“

Stytta af Lenín á torgi í síberísku borginni Jakútsk, höfuðborg …
Stytta af Lenín á torgi í síberísku borginni Jakútsk, höfuðborg Jakútíu. Kvikmyndaiðnaður blómstrar nú í borginni. AFP

Í hinu afskekkta sjálfstjórnarlýðveldi Jakútíu í Rússlandi blómstrar rússneski kvikmyndaiðnaðurinn þrátt fyrir mikinn kulda, enda svæðið þekkt fyrir miklar vetrarhörkur sem takmarka oft tökutímann þó að leikstjórar kenni „öndum“ um að trufla tökuliðið.

Sex tímabelti skilja Jakútíu frá helstu kvikmyndaskólum Rússlands. Þrátt fyrir að fá engan ríkisstuðning er um helmingur allra rússneskra kvikmynda, sem framleiddar eru utan Moskvu og Pétursborgar, tekinn upp í Jakútíu.

„Það vilja allir gera kvikmynd,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Alexei Romanov, sem yfirgaf vænlegan feril sem kvikmyndagerðarmaður í Pétursborg fyrir þremur áratugum til þess að snúa aftur heim til Síberíu.

„Við erum með myndir með pínulitla fjárhagsáætlun og hlægilega lágar þóknanir, en þær gefa af sér meira í kvikmyndahúsum hér en Hollywood-stórmyndirnar gera,“ segir Romanov.

Höfuðstöðvar Sakhafilm, stærsta framleiðslufyrirtækisins í Jakútíu. Alexei Romanov, einn stofnandi …
Höfuðstöðvar Sakhafilm, stærsta framleiðslufyrirtækisins í Jakútíu. Alexei Romanov, einn stofnandi Sakhafilm, segir alla nú vilja gera kvikmynd. AFP

Frostið nær allt að 50 gráðum

Þegar Romanov sneri aftur til Jakútíu, sem er umfangsmikið sjálfsstjórnarsvæði þar sem innan við milljón manns býr, samanstóð kvikmyndaiðnaðurinn á staðnum af tveimur myndatökumönnum.

Romanov á sinn þátt í því að nú berjast kvikmyndaframleiðendur gott sem um myndavélar til að ná að ljúka myndum sínum áður en vetrarkuldinn leggst yfir, en frostið í Jakútíu getur orðið allt að 50 gráður.

Hann segir meðalfjárhagsáætlun þeirra mynda sem framleiddar eru í Jakútíu vera á bilinu 40.000-80.000 dollarar, eða bilinu 5-10 milljónir króna. Flestir leikaranna vinna líka launalaust og vonast til að fá greitt eftir á, skili myndirnar hagnaði.

Stærri kvikmyndaframleiðendur í Rússlandi og framleiðendur í öðrum löndum eru hins vegar nú farnir að beina sjónum sínum til Jakútíu.

Lyubov Borisova vinnur að gerð kvikmyndar sinnar Sólin sest aldrei. …
Lyubov Borisova vinnur að gerð kvikmyndar sinnar Sólin sest aldrei. Hún og kvikmyndatökuliðið urðu að fæða eldinn til að halda öndum í skefjum við gerð myndarinnar. AFP

Uppvakningar og grænskeggja hetja

Kvikmyndin Arnarhöfðinginn sem framleidd var í Jakútíu og fjallar um eldri hjón sem búa með erni í skóginum hlaut virt verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Moskvu á síðasta ári. Þá voru á annan tug mynda frá Jakútíu sýndar á Busan-kvikmyndahátíðinni í Suður-Kóreu árið 2017 og hlutu þar lof fyrir einstakan kvikmyndastíl.

Íbúar kalla kvikmyndaiðnaðinn í Jakútíu gjarnan „Shakhawood“ og vísa þar til hins heitis héraðsins, sjálfsstjórnarlýðveldið Saka.

Þó að ósnortin náttúra Jakútíu eigi sér djúpar rætur í þjóðsögum og hefðum seiðmanna eru kvikmyndirnar sem teknar eru upp þar engu að síður einkar fjölbreyttar.

Nýlegar var til að mynda frumsýnd myndin „Republic Z“, sem fjallar um helfararuppvakninga sem vakna til lífsins út frá vírus sem grafinn er í sífrerann.

Önnur nýleg mynd er „Cheeke“, spennu-gamanmynd með diskóatriðum og grænskeggjaðri hetju.

Kvikmyndafrumsýningar í höfuðborginni Jakútsk eru líka oft hversdagslegar, frekar en …
Kvikmyndafrumsýningar í höfuðborginni Jakútsk eru líka oft hversdagslegar, frekar en stjörnum prýdd galakvöld. Oft mæta áhorfendur bara af því að einhver ættingja þeirra tók þátt í gerð myndarinnar. AFP

Asía öðrum megin og Norðurlönd hinum megin

Romanov, sem er meðal stofnenda Sakhafilm, stærsta framleiðslufyrirtækis Jakútíu, segir alþjóðlegan áhuga á listrænum myndum mögulega skýra hversu fjölbreyttar myndirnar eru.

„Við erum með Asíubúa öðrum megin og svo Norðurlandabúa hinum megin,“ segir hann og við þetta blandist svo tyrknesk arfleifð.

Jin Park, sem vinnur fyrir valnefnd Busan-kvikmyndahátíðarinnar, segir framleiðendur í Jakútíu gera myndir sem búi yfir einstökum töfrum sem sjaldan finnist í öðrum myndum sem framleiddar eru á landsbyggðinni. Myndirnar sem gerðar séu í Jakútíu blandi þjóðsögum og þjóðsagnatrú saman við nútímagildi.

Ósnortin náttúra Jakútíu hentar vel til kvikmyndagerðar.
Ósnortin náttúra Jakútíu hentar vel til kvikmyndagerðar. AFP

Einangrunin freistar ekki stóru framleiðendanna

Hversu afskekkt Jakútía er eykur enn frekar á töfrana og hjálpar til við að halda lífinu í óháðri kvikmyndagerð á staðnum.

„Við erum heppin að vera svona langt frá öllu, þannig að stóru framleiðendurnir tóku aldrei yfir kvikmyndahúsin okkar,“ segir kvikmyndaframleiðandinn Lyubov Borisova. „Einangrunin gerir okkur óaðlaðandi fyrir stærri keðjur sem vilja frekar Hollywood-stórmyndir og hafa lokað á minni myndir í öðrum héruðum Rússlands.“

Kvikmyndafrumsýningar í höfuðborginni Jakútsk eru líka oft hversdagslegar, frekar en stjörnum prýdd galakvöld. Oft mæta áhorfendur bara af því að einhver ættingja þeirra tók þátt í gerð myndarinnar. Gestir eru líka óhræddir við að tjá sig beint við framleiðendurna og nota þá gjarnan samfélagsmiðilinn Instagram. „Áhorfendur okkar eru kenjóttir,“ segir Borisova hlæjandi. „Þeir vita að við lesum allar athugasemdirnar þannig að þeir ávarpa okkur beint.“

Barn gengur heim eftir skóla í 41 gráðu frosti í …
Barn gengur heim eftir skóla í 41 gráðu frosti í bænum Oy, í nágrenni höfuðborgarinnar Jakútsk. Frostið í Jakútíu getur náð allt að 50 gráðum. AFP

Héldu öndunum í skefjum með því að fæða eldinn

Borisova vinnur nú að gerð myndarinnar „Sólin sest aldrei“ sem tekin er upp á afskekktri eyju á norðurskautssvæðinu. Hún dvaldi ásamt kvikmyndatökuliðinu í yfirgefinni álmu heilsugæslu bæjar við Laptev-hafið í mánuð. Kvikmyndatökuliðið heyrði stöðugt í „öndum“ í byggingunni sem þau urðu að bæla frá með því að „fæða eldinn“, en í Jakútíu þekkist sú hefð að gera slíkt með því að setja litla brauðbita í eldstóna.

Í æsku lærði Romanov kvikmyndagerð hjá sovésku kvikmyndagoðsögninni Sergei Gerasimov, en einn þekktasti kvikmyndaskóli Moskvu er skírður í höfuðið á honum.

„Hann sagði alltaf við mig, ekki vera með uppfinningasemi, myndaðu það sem þú þekkir og ekki herma eftir öðrum og þetta er það sem við kennum okkar unga kvikmyndagerðarfólki,“ segir Romanov og kveður ungu leikstjórana nú ekki vilja fara annað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert