Leiðtogi talibana var nágranni Bandaríkjahers

Mullah Omar árið 1993.
Mullah Omar árið 1993. Af Wikipedia

Mullah Omar, leiðtogi talibana, var nágranni Bandaríkjahers í Afganistan í mörg ár og bandarískir hermenn leituðu meðal annars í húsinu þar sem hann var í felum en fundu ekki leyniherbergið sem var útbúið þar fyrir hann. Þetta kemur fram í nýrri ævisögu Omar sem hollenska blaðakonan og rithöfundurinn Bette Dam skrifar og fjallað er um í Guardian í dag. 

Þar er frásögnum talibana sjálfra kollvarpað en þeir héldu því alltaf fram að Omar hafi stýrt talibönum allt til dauða en svo virðist vera að hann hafi falið öðrum völdin árið 2001.

Mullah Mohammad Omar var leiðtogi talibana til ársins 2013 er hann lést úr berklum. Dauða hans var haldið leyndum í tvö ár þegar tilkynnt var um að Mullah Akhtar Mansour væri nýr leiðtogi samtakanna.

Omar sást síðast opinberlega árið 2001 en hann stofnaði íslamskt emíraveldi í Afganistan árið 1996. Omar fæddist árið 1960 og var fjölskylda hans sárafátæk og ekki með nein pólitísk tengsl.

Omar gekk til liðs við muja­hi­deen-sveit­irnar í borg­ara­stríðinu sem geisaði í Af­gan­ist­an á ní­unda ára­tug síðustu ald­ar. Sveitirnar börðust um yfirráð í landinu við Sovétríkin og kommúnistastjórn lýðveldisins Afganistan. Omar stofnaði talibana-samtökin árið 1994 og ári síðar höfðu þeir hrifsað til sín völdin í suðurhluta Afganistan. Í september 1996 náðu talibanar Kabúl, höfuðborg Afganistan, á sitt vald. Omar hélt sig hins vegar yfirleitt í Kandahar og fór afar sjaldan þaðan. Hann var þekktur fyrir að vera fámáll og vera einangraður frá öðrum. 

Bandarísk yfirvöld settu hann á lista yfir eftirlýsta eftir að hafa verið sakaður um að skjóta skjólshúsi yfir Osama bin Laden og vígamenn al-Qaeda eftir árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Omar var þekktur sem sá eineygði en hann missti annað augað í bardaga í kringum árið 1987. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær en aðeins ein mynd virðist vera til af honum. 

Ævisagan sem var að koma út á ensku þykir afar vandræðaleg fyrir bandarísku leyniþjónustuna sem setti 10 milljónir Bandaríkjadala til höfuðs Omar eftir árásirnar 11. september.

Ítarlega er fjallað um bókina á vef Guardian  og Wall Street Journal.

 

mbl.is