Vaknaði úr dái eftir 27 ár

Konan lenti í bílslysi árið 1991 í Sameinuðu arabísku furstadæminu.
Konan lenti í bílslysi árið 1991 í Sameinuðu arabísku furstadæminu. AFP

Kona sem var í dái í 27 ár hefur náð undraverðum bata. Hún getur átt í samræðum við son sinn en notast við hjólastól. Konan sem er frá Sameinuðu arabíska furstadæminu lenti í bílslysi árið 1991. Hún sat með son sinn í aftursæti fólksbíls þegar annar bíll keyrði á þau. Hún vafði örmum sínum um son sinn sem slapp með skrámur en hún varð örkumla. BBC greinir frá. 

Fljótlega eftir slysið var hún flutt til frekari aðhlynningar á sjúkrahús í London. Á síðustu áratugum hefur hún verið flutt á milli landa og sjúkrastofnananna. Hún var á sjúkrahúsi í Þýskalandi þegar hún vaknaði til meðvitundar nýverið.  

„Ég gaf aldrei upp vonina því ég trúði því alltaf að einn daginn myndi hún vakna,“ segir Omar Webair sonur hennar. Í dag er hann jafn gamall móður sinni og þegar hún lenti í slysinu 32 ára gömul.   

Vaknaði í Þýskalandi

„Á spítalanum varð misskilningur þar sem hún skynjaði að ég var í hættu. Hún byrjaði að gefa frá sér sérkennileg hljóð því hún fékk áfall,“ segir Omar. Eftir atvikið óskaði hann eftir að læknar skoðuðu hana betur sem þeir og gerðu og sáu engar breytingar. 

Þremur dögum síðar kallaði hún á son sinn með nafni. „Þetta var hún. Hún kallaði á mig. Ég sveif af gleði. Í mörg ár hafði mig dreymt um þetta og nafnið mitt var það fyrsta sem hún sagði,“ segir Omar. 

Hann segir að engu hafi verið líkara en að móðir hans hafi endurupplifað slysið fyrst þegar hún vaknaði. Í dag getur hún átt í samskiptum við fjölskyldu sína. 

Omar hvetur alla þá sem eiga ástvin sem er í sömu stöðu og móðir hans að gefa ekki upp vonina þrátt fyrir hvað allir læknar telja ástandið vonlaust.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert