Norsk orrusta mynduð í Póllandi

Úr kynningarefni kvikmyndarinnar um orrustuna um Narvik. Norðmenn vörðu bæinn …
Úr kynningarefni kvikmyndarinnar um orrustuna um Narvik. Norðmenn vörðu bæinn með kjafti og klóm og höfðu sigur eftir tveggja mánaða bardaga. Ljósmynd/Nordisk Film

Alls voru 80 flugvélar skotnar niður og 65 skipum sökkt þegar þýskur innrásarher sótti að bænum Narvik í Ofoten í Nordland-fylki vorið 1940 í tilraun sinni til að tryggja sér vöruflutninga frá sænskum járngrýtisnámum í Kiruna og Gällivare. Barist var um Narvik allt frá innrás Þjóðverja í Noreg, 9. apríl 1940, fram til 8. júní sama ár. Kvikmynd um hildi þessa er nú í bígerð og segir framleiðandi hennar hana líklega tekna að hluta í pólskum kvikmyndaverum.

„Við erum í viðræðum við stórt kvikmyndafyrirtæki í Póllandi sem líklega mun lykta með því að við tökum öll inniatriðin í kvikmyndaveri í Varsjá í Póllandi,“ játar framleiðandi myndarinnar, Aage Aaberge, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í gær.

Þetta er reyndar ekki út í hött þar sem pólskir hermenn börðust við hlið Norðmanna við að verja bæinn fyrir innrásarher Þjóðverja auk þess sem Aaberge játar að sterkir pólskir fjárfestar komi að gerð myndarinnar. Hann segir þó að stór atriði í myndinni verði tekin í og umhverfis Narvik.

Afhenti Þjóðverjum bæinn

Orrustan hófst snemma að morgni 10. apríl 1940 þegar tíu þýskir tundurspillar gerðu atlögu að norsku herskipunum Norge og Eidsvold. Samtímis gengu þýskir fjallahermenn, svokallaðir Gebirgsjäger, sérþjálfaðir í návígishernaði í fjalllendi, á land og réðust að norskum hermönnum og bandamönnum sem höfðu samanlagt 24.500 manna lið til varnar.

Þýski tundurspillirinn Bernd von Arnim hálfsokkinn eftir atlögu konunglega breska …
Þýski tundurspillirinn Bernd von Arnim hálfsokkinn eftir atlögu konunglega breska sjóhersins í apríl 1940. Ljósmynd/Scanpix

Norski majórinn Carl Gustav Fleischer stjórnaði vörn Norðmanna sem var að engu höfð þegar Konrad Sundlo, umdæmisstjóri norska þjóðernisflokksins Nasjonal Samling, flokks landráðamannsins Vidkun Quisling, lýsti yfir þýskum yfirráðum í Narvik og afhenti þýska innrásarhernum bæinn nánast á silfurfati.

Sundlo var dæmdur í ævilangt fangelsi eftir síðari heimsstyrjöldina en sleppt lausum árið 1952. Flokksbróðir hans, Vidkun Quisling, einn alræmdasti samverkamaður nasista í Noregi, var dæmdur til dauða fyrir landráð og stillt upp frammi fyrir norskri aftökusveit við Akershus-kastalann í Ósló eldsnemma að morgni 24. október 1945 og varð fáum löndum sínum harmdauði.

„Hér teflir um Noreg!“

Eduard Wohlrath Christian Dietl ofursti leiddi innrás Þjóðverja sem sætti verulegum mótvindi þegar konunglegi breski sjóherinn sökkti innrásarher Þjóðverja í heild sinni í tveimur sjóorrustum 10. og 13. apríl, tíu tundurspillum og tveimur kafbátum. Her bandamanna réðst svo til atlögu og voru sveitir Dietl ofursta nær því bornar ofurliði þegar bandamenn þurftu frá að hverfa til að koma frönskum hersveitum til aðstoðar á ögurstundu á vesturvígstöðvunum 8. júní. Hafði þá orrustan um Narvik staðið í tvo mánuði en Þjóðverjar lögðu ofuráherslu á að ná yfirráðum járngrýtisflutninganna frá Svíþjóð.

Þó má segja að hersveit Þjóðverja í Narvik hafi verið sigruð nokkru áður, 28. maí, þegar norska herdeildin IR-15 stökkti Þjóðverjum á flótta með fulltingi frönsku útlendingahersveitarinnar. Ivar Hyldmo majór leiddi þar herstyrk Norðmanna og varð frægur fyrir orð sín „Standið ykkur drengir, hér teflir um Noreg!“ (Stå på gutter, det er Norge det gjelder!). Þjóðverjar hefndu tapsins grimmilega og gerðu loftárásir á Narvik 31. maí, 1., 2. og 7. júní og fluttu Norðmenn 4.500 íbúa bæjarins á brott sjóleiðis á elleftu stundu.

Þjóðverjar varpa sprengjum á Narvik 1. júní 1940, 4.500 bæjarbúar …
Þjóðverjar varpa sprengjum á Narvik 1. júní 1940, 4.500 bæjarbúar voru fluttir brott með skipum áður en til árásanna kom. Ljósmynd/Scanpix

Því hefur verið haldið fram að tap Narvikur vorið 1940 hafi verið fyrsti ósigur herja Adolfs Hitlers í síðari heimsstyrjöldinni en segja má að Norðmenn hafi endanlega náð þessum hernaðarlega mikilvæga bæ í Nordland á sitt vald þegar norskar og pólskar hersveitir hröktu síðustu dreggjar þýska innrásarhersins að sænsku landamærunum dagana 3. til 8. júní.

Alls týndu 8.500 manns lífi sínu í Narvik vorið 1940.

NRK

VG 

SNL

mbl.is