Fleiri tóku eigið líf eftir útgáfu Netflix-þátta eins og varað hafði verið við

Skörp aukning varð á sjálfvígstíðni bandarískra drengja mánuðinn eftir að …
Skörp aukning varð á sjálfvígstíðni bandarískra drengja mánuðinn eftir að Netflix-þættirnir 13 Reasons Why fóru í loftið árið 2017. AFP

Bandarískum drengjum á aldrinum 10-17 ára sem tóku eigið líf fjölgaði um 28,9% mánuðinn eftir að Netflix gaf út fyrstu þáttaröðina af 13 Reasons Why í mars 2017. Engin marktæk breyting átti sér stað á sjálfsvígstíðni stúlkna á sama aldri, né fullorðinna. Þetta sýna niðurstöður nýrrar bandarískrar rannsóknar, sem birtist í lok aprílmánaðar í fræðitímariti um barna- og unglingasálfræði (Journal of the American Academy of Child and Adolescent Psychiatry).

Þáttaröðin fjallar um gagnfræðaskólanemandann Hönnuh Baker og aðdraganda þess að hún tók sitt eigið líf. Netflix mætti frá upphafi gagnrýnis- og áhyggjuröddum sérfræðinga í geðheilbrigðismálum, þar sem talið var að nálgun þáttanna gæti orðið til þess að láta sjálfsvíg líta út sem rökrétt framhald á tilfinningavanda ungrar manneskju.

„Vanda­málið er að all­ar upp­byggi­leg­ar leiðir til að vinna úr til­finn­inga­vanda ungs fólks falla í skugg­ann fyr­ir út­leið Hönnuh í þátt­un­um. Upp­bygg­ing­in er með þeim hætti að sjálfs­vígið virðist nán­ast vera rök­rétt af­leiðing af því hvernig komið hef­ur verið fram við hana án þess að marg­ar aðrar leiðir, eins og að leita til for­eldra, vina, hjálp­arsíma, heilsu­gæslu eða ráðgjafa til að leysa vand­ann, séu skoðaðar,“ sagði Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, í viðtali við mbl.is skömmu eftir útgáfu þáttanna.

Sýnt fram á fylgni en ekki orsakasamband

Í rannsókninni, sem unnin var af rannsóknarteymi barnaspítalans í Ohio-ríki (Nationwide Children's Hospital), var ekki sýnt fram á orsakasamband á milli áhorfs og sjálfsvígs, en fyrirliggjandi opinber gögn um sjálfsvíg í Bandaríkjunum sýna þó að það varð markverð aukning í sjálfsvígum á meðal ungmenna, aðallega drengja, mánuðina eftir að þættirnir fóru í loftið.

Rannsakendurnir fullyrða í samantekt á niðurstöðum sínum að „útgáfa 13 Reasons Why tengist markverðri aukningu á mánaðarlegri sjálfsvígstíðni á meðal bandarískra ungmenna á aldrinum 10-17 ára“ og bæta við að varúðarleiðbeiningar sem gefnar hafa verið um áhorf barna og ungmenna á þáttaröðina eigi rétt á sér.

Jeffrey Bridge, sem leiddi rannsóknarteymið, segir við AFP-fréttaveituna að Netflix-þættirnir hafi sýnt sjálfsvíg aðalpersónunnar á æsifenginn hátt, sem geti valdið áfalli fyrir þá sem hafa misst einhvern nákominn í sjálfsvígi og þá sem hafi reynt að taka eigið líf.

„Niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta áhyggjurnar af því hvernig þáttaröðin hundsaði bestu starfsvenjur um framsetningu sjálfsvíga í fjölmiðlum,“ sagði Brigde við AFP.

Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent er á hjálp­arsíma Rauða kross­ins, 1717. Einnig má hafa sam­band við Píeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218.

Frétt New York Times um málið

Frétt CNN um málið

Frétt Washington Post um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert