Sjálfsvíg í búningi glansímyndar

Hannah Baker.
Hannah Baker. Ljósmynd/Netflix

Framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, segir ásetninginn á bak við þættina „13 reasons why“ eflaust góðan. Hins vegar sé sjálfsvígið, sem þættirnir snúast um, sett fram sem rökrétt framhald á því sem á undan hafi gengið án þess að aðrar uppbyggilegri leiðir séu skoðaðar, sem sé ekki gott.

Þáttaröðin „13 reasons why“ fjallar um unglingsstúlkuna Hönnuh Baker sem sviptir sig lífi. Hannah skilur eftir 13 kassettur en hver þeirra inniheldur ástæðu þess að hún ákvað að velja þá leið. Fylgst er með skólafélaga, Clay Jensen, hlusta á spólurnar og um leið átta sig betur á því sem Hannah gekk í gegnum síðustu vikurnar áður en hún dó. Þættirnir eru byggðir á skáldsögunni „13 reasons“ sem kom út fyrir tíu árum.

„Vandamálið er að allar uppbyggilegar leiðir til að vinna úr tilfinningavanda ungs fólks falla í skuggann fyrir útleið Hönnuh í þáttunum. Uppbyggingin er með þeim hætti að sjálfsvígið virðist nánast vera rökrétt afleiðing af því hvernig komið hefur verið fram við hana án þess að margar aðrar leiðir, eins og að leita til foreldra, vina, hjálparsíma, heilsugæslu eða ráðgjafa til að leysa vandann, séu skoðaðar,“ segir Anna.

Leikararnir Dylan Minnette og Katherine Langford leika Clay Jensen og …
Leikararnir Dylan Minnette og Katherine Langford leika Clay Jensen og Hönnuh Baker í 13 reasons why. AFP

Of margir unglingar fara þessa leið nú þegar

Töluvert hefur verið rætt og ritað um þættina síðan þeir voru frumsýndir í lok mars. Einhverjir virðast telja þáttaröðina efni sem eigi erindi við unglinga, að fólk eigi að koma vel fram við hvert annað og enginn viti hvað náunginn sé að ganga í gegnum. Aðrir telja að það sé verið að réttlæta leið Hönnuh og því geti þættirnir verið hættulegir ungu fólki, einkum ef það er viðkvæmt fyrir.

„Þættirnir koma ekki með neinar lausnir fyrir unglinga og vandamálin sem þeir glíma við. Sjálfsvíg er sett í búning glansímyndar og nú þegar fara of margir unglingar þessa leið. Þáttaröðin einblínir á það að ef enginn hlustar á þig þá muni fólk hlusta á þig eftir að þú bindur enda á eigið líf,“ skrifar Ross Ellis í Huffington post.

Bannaðir yngri en 18 ára í Nýja-Sjálandi

„Dauði Hönnuh er settur fram, ekki eingöngu sem rökréttur heldur órjúfanlegur hluti þess sem á undan gekk. Það ætti ekki að setja sjálfsvíg fram sem gjörðir einhvers sem hugsar skýrt,“ stendur í frétt vegna þáttaraðarinnar í Nýja-Sjálandi.

Þættirnir hafa verið bannaðir ungmennum undir 18 ára aldri, nema í fylgd með forráðamönnum í Nýja-Sjálandi en sjálfsvígstíðni ungmenna er hvað hæst í heiminum þar í landi. 

Anna telur að fullorðnir geti með því að horfa á þættina með börnum sínum skapað grundvöll fyrir uppbyggilegum umræðum um umfjöllunarefni þáttanna á borð við einelti, vímuefnaneyslu, kynferðisofbeldi og slæm samskipti. 

Leikarar og aðstandendur við frumsýningu þáttaraðarinnar. Selena Gomez er fyrir …
Leikarar og aðstandendur við frumsýningu þáttaraðarinnar. Selena Gomez er fyrir miðju en hún er einn framleiðanda þáttanna. AFP

Hún segir ungar stúlkur oft verða fyrir barðinu á einelti, sér í lagi á samfélagsmiðlum. „Sífellt meiri þrýstingur er á stelpur að vera kynþokkafullar og svo er svo stutt í að þær séu stimplaðar druslur. Konur eru hlutgerðar og alvarlegasta afleiðingin er án efa kynferðislegt ofbeldi eins og kemur fram í þáttunum,“ segir Anna og bendir á að oft sé þunn lína á milli þess sem talið er kynþokkafullt og þess sem talið er „druslulegt“.

Verðum að huga að því hvernig öðrum líður

Eins og áður kemur fram er hver kassetta ein ástæða þess að Hannah ákveður að binda enda á líf sitt. Þar bendir hún á atburð sem tengist ákveðnum manneskjum sem hver um sig ýtti henni nær brúninni. Þættirnir benda á að það skiptir máli hvernig við komum fram við hvert annað, litlir hlutir geti skipt máli og við vitum ekki hvað aðrir hafa gengið í gegnum.

Maður veit aldrei hvað aðrir eru að ganga í gegnum.
Maður veit aldrei hvað aðrir eru að ganga í gegnum. Skjáskot/Twitter

„Vandinn er líka sá að margir sitja hjá þegar réttu viðbrögðin eru að skerast í leikinn. Eins og Clay segir verðum við einfaldlega að láta okkur annað fólk varða og gera betur í samskiptum,“ segir Anna og bendir á að þessi veruleiki verði til þess að ungu fólki líði ekki nógu vel.

„Þessa þróun sjáum við á Íslandi þar sem andlegri líðan ungs fólks hefur hrakað frá árinu 2013.“

Hefði viljað sjá aðrar leiðir kynntar í þáttunum

Hannah leitar ekki aðstoðar sérfræðinga, fyrir utan það að hún ræðir við ráðgjafa í skólanum sama dag og hún endar líf sitt. Anna segir að Geðhjálp leggi mikla áherslu á að ungt fólk tjái sig, til að mynda bendir hún á forvarnarverkefnið „Útmeða“ sem Geðhjálp stendur að með Hjálparsíma Rauða krossins. „Við leggjum áherslu á að unga fólkið tali við foreldra, vini, 1717, Geðhjálp, heilsugæsluna, sálfræðinga eða sérhæfða aðila eins og sérfræðinga í kynferðisofbeldi eftir því hvað við á hverju sinni. Ég hefði viljað sjá slíkar leiðir kynntar í þáttunum.“

Anna telur að þó að ráðgjafinn í þáttaröðinni virðist vanmáttugur skipti sköpum að sálfræðingar séu ráðnir til framhaldsskóla.  „Nú eru komnir sálfræðingar í flesta framhaldsskóla en flestir þeirra eru ráðnir í gegnum tímabundna styrki. Því þarf að breyta til að tryggja stöður sálfræðinga í öllum skólum. Svo er auðvitað forgangsmál að gera þjónustu sálfræðinga aðgengilega.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert